145. löggjafarþing — 119. fundur,  26. maí 2016.

timbur og timburvara.

785. mál
[18:10]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra framsöguna. Ég hef nokkrar spurningar varðandi áhrif þessarar innleiðingar og lagasetningar ef af verður.

Í fyrsta lagi það sem mér finnst ekki alveg nógu skýrt við fyrstu sýn. Fram kemur að í aðdraganda málsins og í samráði við hagsmunaaðila hafi komið fram athugasemdir sem snerust um það að hér væri um að ræða íþyngjandi ráðstöfun fyrir rekstraraðila og niðurstaðan hafi orðið sú að bregðast við með þeim hætti að rekstraraðilum væri heimilt að nota eftirlitskerfi eða verklagsreglur sem þeir nota nú þegar við gildistöku laganna og samræmast kröfum um kerfi áreiðanleikakannana.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvernig framkvæmd þessarar aðlögunar verður og hver það er sem mun þá meta hvort viðkomandi kerfi samræmist umræddum kröfum. Er það Mannvirkjastofnun eða er það ráðuneytið eða hver er það annar sem gerir það? Er ætlast til þess síðan í fyllingu tímans að viðkomandi rekstraraðili taki kerfið upp engu að síður eða telst það þá fullnægjandi ráðstöfun ef kerfið samræmist þeim ramma sem fram kemur við fyrsta mat á málinu?