145. löggjafarþing — 119. fundur,  26. maí 2016.

stjórn fiskveiða.

786. mál
[18:18]
Horfa

Frsm. atvinnuvn. (Lilja Rafney Magnúsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frumvarp til laga um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum, byggðakvóti og framlenging bráðabirgðaákvæða. Þetta frumvarp til laga leggur atvinnuveganefnd fram.

1. gr. hljóðar svo:

Á eftir 10. gr. laganna kemur nýtt ákvæði, 10. gr. a, svohljóðandi:

Byggðastofnun hefur til ráðstöfunar aflaheimildir sem ráðherra ákvarðar samkvæmt heimild í 5. mgr. 8. gr. til að styðja byggðarlög í alvarlegum og bráðum vanda vegna samdráttar í sjávarútvegi. Byggðastofnun getur gert samninga við fiskvinnslur eða útgerðarfélög til allt að sex ára í senn. Byggðastofnun skal hafa samráð við sveitarstjórn viðkomandi sveitarfélags áður en samningur er undirritaður. Aflaheimildir skulu vera í þorski, ýsu, steinbít og ufsa í hlutfalli við leyfðan heildarafla af þessum tegundum. Aflaheimildir þessar miðast við þorskígildi og skulu þær dregnar frá með sama hætti og greinir í 3. mgr. 8. gr. laganna, sbr. 5. mgr. sömu greinar. Ráðherra er heimilt, að fengnum tillögum Byggðastofnunar, að setja nánari ákvæði um framkvæmd þessa ákvæðis í reglugerð, svo sem efni samnings, skilyrði og tímalengd.

Þá er það 2. gr.:

Ákvæði til bráðabirgða V, XIII, XIV og XV í lögunum falla brott.

3. gr. Eftirfarandi breytingar verða á ákvæði til bráðabirgða VII í lögunum:

a. Í stað ártalanna „2014/2015“ í 1. málslið. 1. mgr., sbr. 10. gr. laga nr. 48/2014, kemur: 2016/2017.

b. Í stað orðanna „innan mánaðar“ í 2. málslið. 1. mgr., sbr. 2. gr. laga nr. 74/2010, kemur: mánuði.

4. gr. Í stað ártalanna „2015/2016“ í 1. mgr. ákvæði til bráðabirgða VIII í lögunum kemur: 2016/2017.

5. gr. Lög þessi öðlast þegar gildi.

Í frumvarpi þessu eru lagðar til nokkrar breytingar á ákvæðum sem eru til bráðabirgða í lögunum. Í 1. gr. er lagt til að lögfest verði sem 10. gr. a laganna ákvæði um byggðakvóta Byggðastofnunar vegna brothættra byggða sem nú er í bráðabirgðaákvæði XIII. Jafnframt er lagt til að bráðabirgðaákvæðið falli brott. Reynslan hefur sýnt að þörf er á slíkum stuðningi fyrir þau byggðarlög sem flokkast sem brothætt byggðarlög og hefur þessi sérstaka úthlutun þótt skila góðum árangri.

Einnig er lagt til að þrjú önnur ákvæði til bráðabirgða í lögunum verði felld brott þar sem þau eiga ekki lengur við, þ.e. ákvæði til bráðabirgða V, XIV, XV. Í 3. gr. frumvarpsins er lagt til að framlengd sé til lok næsta fiskveiðiárs heimild ráðherra í ákvæði til bráðabirgða VII til að hafa afskipti af því þegar aflaheimildir eru framseldar eða þeim ráðstafað með öðrum hætti úr sveitarfélögum ef um er að ræða umtalsverðan hluta aflaheimilda viðkomandi sveitarfélags. Einnig er lagt til að orðalag í því ákvæði verði lagfært. Að lokum er lagt til að ákvæði VIII til bráðabirgða um heimild ráðherra til að ráðstafa síld, þ.e. sumargotssíld og norsk-íslenskri síld, gegn greiðslu verði framlengt til næsta fiskveiðiárs.

Svona lítur þetta frumvarp út. Það er kannski ekki mikill fiskur á þessu beini en munar mikið um að Byggðastofnun fái þarna möguleika á að fá auknar aflaheimildir til ráðstöfunar. Það er auðvitað mjög mikilvægt. Við þekkjum þann sérstaka Byggðastofnunarkvóta sem stofnunin hefur haft til að ráðstafa til brothættra byggða. Það hefur tekist mjög vel til og sýnir fram á að slíkar ráðstafanir geti hjálpað byggðarlögum sem standa frammi fyrir vanda í atvinnu vegna þess að aflaheimildir hafa verið seldar í burtu og það er erfitt að halda uppi atvinnu, fiskvinnslu og sjávarútvegi. Þetta er verkefni sem hefur verið gengið í og byrjaði á síðasta kjörtímabili og hefur í ljósi reynslunnar verið mjög verðmætt, það hefur sýnt sig að þetta skilar árangri. En það er líka nauðsynlegt að þá séu nægar aflaheimildir upp á að hlaupa hjá Byggðastofnun þegar eitthvert byggðarlag lendir í vanda, svo að hægt sé að ráðstafa þeim aflaheimildum til þeirra aðgerða sem ég tel að skili sér margfalt til baka, eins og sýnt hefur verið fram á.

Auðvitað er líka alvarlegt að hlutirnir séu komnir í þann farveg að grípa þurfi til þessara ráðstafana. Þá getum við velt því fyrir okkur hverjar afleiðingar kvótakerfisins eru og hafa verið í gegnum tíðina. Byggðarlög sem voru árum áður í blússandi uppgangi og fólk flutti til til að starfa til sjós og lands eru komin í þá stöðu að þurfa að leita ásjár hjá stjórnvöldum og til Byggðastofnunar sem hefur haft það verkefni með höndum að reyna að styðja þessi byggðarlög svo að þau geti orðið sjálfbjarga og sjálfbær. Það er það sem verið er að gera hérna, en maður hefði viljað að ekki hefði þurft að grípa til slíkra aðgerða, að hlutirnir væru þannig og stjórn fiskveiða væri þannig að byggðirnar gætu einar og óstuddar gengið í það að draga fisk úr sjó og vinna aflann í landi og það gengi eðlilega fyrir sig.

Þau stjórnvöld sem hafa ráðið ferðinni að mestu síðustu 20 ár styðja það grimma kvótakerfi sem við búum við og það óhefta framsal sem hefur farið mjög illa með byggðirnar og hefur leitt til þessa gífurlega vanda sem margar þeirra standa frammi fyrir og til fólksflutnings frá byggðunum. Byggðastofnun þekkir þær tölur allar, hversu mikil fækkun hefur orðið á 20 árum í mörgum sjávarbyggðum. Ég hef alltaf sagt að það eigi að gera samfélagslega úttekt á sjávarbyggðunum, af hverju þau eru komin í þá erfiðu stöðu sem þau eru komin í. Það er ekki eingöngu hægt að skýra þá stöðu með því að þróunin sé í þá átt að fólk sæki á höfuðborgarsvæðið og hafi ekki áhuga á að búa á þessum stöðum, vegna þess að ef grunnurinn er í lagi og innviðirnir eru í lagi og það sem byggðarlögin hafa byggt á í gegnum tíðina, sjávarútvegurinn, ef það fær að vaxa og dafna í friði byggist upp fjölbreytt atvinnustarfsemi í byggðarlögunum. Ungt fólk sem fer og sækir sér menntun hefur þá áhuga á að koma aftur í byggðarlag sitt og nýta menntun sína til að byggja upp gott samfélag. En þá þurfa samfélögin að njóta þeirra auðlinda sem eru við bæjardyrnar, eins og við segjum stundum, og hafa möguleika á að nýta þann rétt, þann frumbyggjarétt sem þau byggðarlög byggðust upp í kringum, en þurfa ekki að versla við einhverja sem hafa yfir aflaheimildum að ráða til þess að geta sótt sjó.

Hlutirnir hafa þróast þannig að aflaheimildirnar hafa þjappast saman hafa frá því að kvótakerfið var sett á, safnast saman á fárra manna hendur. Það eru fáir aðilar sem geta drottnað og deilt í þeim efnum. Síðan eru það hinir smáu sem hafa orðið undir í þessari samkeppni, sem eru að reyna að bjarga sér og leigja af öðrum sem eiga aflaheimildir, aflamark, á háu verði. Það verð er oft ekkert í takt við það verð sem sjómaðurinn fær síðan þegar hann selur afla sinn, hvort sem er á markaði eða til fiskvinnslunnar í heimabyggð sem hann leggur upp hjá.

Ég hef talað fyrir því ásamt fleiri hv. þingmönnum að byggja upp öflugan leigupott þar sem þeir sem hafa hug á því að byggja upp útgerð og stunda sjómennsku hafa það atvinnufrelsi að geta sótt í þann leigupott og þá sé einhver eðlileg verðmyndun. Það er miklu eðlilegra og hægt að segja að það sé sjálfsagður hlutur að greiða leigu sem rennur til samfélagsins, frekar en að greiða stórútgerð aðgang að fiskimiðunum eins og er í dag.

Menn hafa talað fyrir ýmsum leiðum. Mér skilst að Færeyingar tali í dag um að bjóða upp aflaheimildir. Ég hef ekki talað fyrir því að það eigi óheft að bjóða upp allar aflaheimildir á Íslandsmiðum því að þá göngum við markaðslögmálunum alfarið á hönd. Ég tel að líka þurfi horfa á fiskveiðistjórnarkerfið út frá félagslegum sjónarmiðum. Byggðirnar vítt og breitt um landið sem eiga mikið undir sjávarútvegi eru ekki í stakk búnar til að keppa við öfluga aðila sem hafa mikið aðgengi að fjármagni og geta haft forskot í að bjóða í aflaheimildir og sópað þeim til sín. Ég hræðist því þá hugsun að allur afli yrði settur í uppboðsmarkað, eins og ég hef heyrt frá mörgum stjórnmálaflokkum, síðast frá nýjum stjórnmálaflokki sem ætlar að bjóða landsmönnum upp á viðreisn. Ég veit ekki hvort sú viðreisn verður endilega viðreisn fyrir landsbyggðina en Viðreisn, þessi nýi stjórnmálaflokkur, talar fyrir því að allar aflaheimildir fari á uppboð, þannig ráðist verðið á þeim markaði. Ég tel að smærri sjávarbyggðum og minni útgerðum og meðalútgerðum sé enginn greiði gerður með óheftum markaði þar sem allar aflaheimildir fara á uppboð.

En að taka einhverja slíka breytu inn í aðrar útfærslur á fiskveiðistjórnarkerfinu tel ég vel vera til skoðunar og hef talað fyrir því. Það frumvarp til breytinga á lögum um stjórn fiskveiða sem lá tilbúið fyrir á síðasta kjörtímabili gerði ráð fyrir því að meðfram leyfum til útgerðaraðila sem núna eru með aflamark, leyfum miðað við ákveðin skilyrði til lengri tíma, og að það yrði ekki óheft framsal, yrði í boði af hálfu ríkisins öflugur leigupottur sem mundi vaxa með árunum og taka mið af auknum afla á Íslandsmiðum, þannig að aukningin rynni að hluta í þennan pott jafnframt því sem hún rynni til þeirra sem hefðu þá leyfi til einhverra x margra ára, sem væru endurskoðuð eftir einhvern ákveðinn tíma.

Þetta stóra mál hefur verið bitbein hér í fjölda ára og sitt sýnist hverjum. Það má segja að þegar svona kerfi hefur verið lengi við lýði sé gífurlega erfitt að hrófla við því. Hagsmunatengslin eru svo mikil og allt krosstengt í bak og fyrir inn í bankastofnanir og til stærstu sjávarútvegsfyrirtækjanna sem eru ráðandi á markaði. Það eru allir skíthræddir við að hrófla eitthvað við því. Stærstu og öflugustu sjávarútvegsfyrirtæki hafa í skjóli aðgangs að sameiginlegri auðlind þjóðarinnar og sterkrar stöðu í atvinnusköpun á ákveðnum svæðum komið mjög sterk hér fram frá síðasta kjörtímabili, eins og við þekkjum, og mótmælt því að lýðræðislega kjörnir fulltrúar geri breytingar á fiskveiðistjórnarkerfinu. Forsvarsmenn stórútgerða í landinu söfnuðu saman fólki úr sínum röðum, þótt ég haldi reyndar að ekki hafi endilega allir verið svo glaðir með að vera smalað á Austurvöll til að mótmæla breytingum á fiskveiðistjórnarkerfinu og veiðigjöldum. En það vakti mjög hörð viðbrögð þegar átti að fara að hreyfa við fiskveiðistjórnarkerfinu og leggja á auðlindarentu. Menn risu upp á afturlappirnar með að ég vil segja fjármálakerfið með sér og stóru útgerðirnar. Ég segi ekki að menn hafi legið undir hótunum en það gerðist sem við óttuðumst að sú mikla alda sem reis gegn öllum breytingum frá fjársterkum aðilum olli því að breytingar á fiskveiðistjórnarkerfinu í lok síðasta kjörtímabils voru stoppaðar. Menn lögðust á sveif með þessum aðilum, minni hlutinn á Alþingi þá, þeir sem sitja nú í stjórnarmeirihluta, lagði því lið og stoppaði það af að gerðar yrðu þær breytingar sem ég tel að hefðu orðið mjög til bóta. Þær hefðu vissulega verið ákveðin málamiðlun en ef þær hefðu verið samþykktar hefði ótal sjónarmiðum verið mætt úr öllum áttum. Auðvitað er það þannig að enginn nær sínu fullkomlega fram, sama hvað það er, og ef eitthvað á að standa til lengri tíma þarf að gera málamiðlun. Ég tel að í því frumvarpi hafi falist mikil tækifæri fyrir nýliðun og möguleika á nýliðun og opnun á að þeir sem eru litlir í dag og berjast í því að halda útgerð sinni gangandi og leigja öðrum hefðu haft tækifæri til að leigja úr leigupotti ríkisins og byggja sig upp og koma sér betur fyrir. Aðgengi að sjávarútvegi hefði verið miklu meira en það er í dag.

Það eru fyrst og fremst ungir menn sem stunda sjó þótt það sé til undantekning á því. Núna mennta ungir menn sig, fara í vélstjórn og Stýrimannaskólann og mennta sig til þess að gera út og hafa stjórn á stórum bátum og skipum. Þeir fara í ýmiss konar skipstjórnarnám og öðlast mismunandi réttindi eftir því hvaða stærð þeir mennta sig til, það er allt frá því að vera með réttindi á strandveiðibáta upp að 12 metrum og upp í millilandaskip. En það unga fólk sem menntar sig svona og hefur áhuga á því að búa í fallegum sjávarbyggðum í kringum landið hefur ekki sömu möguleika og fólk hafði fyrir 20–30 árum á að koma í heimabyggð sína og byggja upp útgerðarfyrirtæki. Menn hafa ekki það fé handa á milli að geta startað því að kaupa varanlegar aflaheimildir til þess að það beri rekstur á minni bát. Það er ekki þannig þegar varanlegt kíló af þorski er á um 2.500–3.000 kr. Það ræður auðvitað enginn við það.

Opnun á kerfið eins og það er í dag var þó gerð og það eru þær strandveiðar sem eru núna í gildi. Ég tel að við þurfum að festa það sem best í sessi með því að laga þar eitthvað til miðað við reynsluna frá því 2009. Það er komin sjö ára reynsla á það kerfi og margt hefur gengið mjög vel og margt mætti laga með hliðsjón af reynslunni. En síðustu ríkisstjórn og okkur sem vorum í meiri hluta á síðasta kjörtímabili tókst þó að gera þá opnun á niðurnjörvað kerfi, sem eru strandveiðar. Það hefur verið gífurlega mikil ánægja með það og margir nýliðar komið þar inn og haft mögulega til að byggja sig upp, þótt auðvitað þyrfti að vera enn greiðari aðgangur að því að leigja aflaheimildir á viðráðanlegu verði.

Í dag er félagslegi hluti fiskveiðistjórnarkerfisins 5,3%, sem ég tel vera allt of lítið. Við í atvinnuveganefnd höfum í marga mánuði, í hátt á annað ár, fjallað um þennan hluta fram og til baka. Núverandi stjórnvöld ætla sér ekkert að auka þann hlut, sem þyrfti vera miklu hærri miðað við óbreytt kerfi til að ýta undir nýliðun og opna á aðgengi að greininni. Kallað hefur verið eftir ótal skýrslum og gögnum og öðru í kringum þetta mál og uppskeran er sú að það stendur til að flytja það mál til eins árs óbreytt að mestu leyti, fyrir utan þá aukningu sem sérstakur kvóti Byggðastofnunar er, sem kemur fram í frumvarpinu sem ég hef mælt fyrir fyrir hönd atvinnuveganefndar.

Við þekkjum það að núverandi ríkisstjórn fór fram með að gera breytingar á fiskveiðistjórnarkerfinu og maður var ekki yfir sig bjartsýnn á að þær breytingar væru þannig að það mundi hugnast a.m.k. þeim sjónarmiðum um breytingar sem ég stend fyrir og Vinstri græn og fleiri í þessu samfélagi. En það frumvarp fór ekki lengra en til stjórnarflokkanna og ég skil það þannig að Sjálfstæðisflokkurinn hafi ekki getað fallist á það frumvarp sem þáverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra Sigurður Ingi jóhannsson kynnti samstarfsflokknum. Svo þar endaði það mál. Því var pakkað niður og kannski er það gott vegna þess að ég er hrædd um að það hefði ekki gagnast veikum sjávarbyggðum vítt og breitt um landið eða þeirri nýliðun sem þarf að vera og opnun á kerfið og því atvinnufrelsi sem þarf að vera í greininni. Greinin þarf líka að greiða sanngjarna auðlindarentu, nota bene eftir aðstæðum. Ég tel alveg fráleitt að litlar og meðalstórar útgerðir greiði sambærilegt og þær stærstu gera þar sem myljandi hagnaður er í gangi, þær geta vissulega greitt hærri veiðigjöld eða auðlindarentu til samfélagsins en gert er í dag.

Þessi ríkisstjórn hefur lækkað veiðigjöld. Hún hefur falið sig á bak við að það sé til þess að mæta minni og meðalstórum útgerðum, sem er ekki satt, langt í frá. Þetta hefur verið smurt svona slétt yfir og eftir stendur enn þá sá vandi minni og meðalstórra útgerða að rísa undir veiðigjöldum en stórútgerðin í landinu greiðir sér og hluthöfum sínum gífurlegan arð. Hvar hefur sá arður lent m.a.? Við lásum um það í Panama-skjölunum hvar sá arður lenti, að hluta til hjá ákveðnu fyrirtæki og einstaklingum. Ég er ansi hrædd um að eitthvað meira eigi eftir að koma upp úr þeirri kistu í framtíðinni. Það er ekki gott að upplifa að arðurinn af sameiginlegri auðlind þjóðarinnar renni eftir ýmsum leiðum út fyrir landsteinana á lágskattasvæði og skili sér ekki til samfélagsins. Á meðan barma útgerðarmenn stórútgerðanna sér og kalla til liðs við sig fólk til að mæta á Austurvöll til þess að berjast gegn öllum réttlátum breytingum á því vonda kvótakerfi sem hefur verið við lýði allt of lengi.

Ég er fylgjandi því að auka sérstakan Byggðastofnunarkvóta og það kemur fram í því frumvarpi sem atvinnuveganefnd leggur fram og ég legg lið. En ég vil gera róttækar breytingar á því fiskveiðistjórnarkerfi sem við búum við í dag og koma tímar og koma ráð. Ég vona að með nýrri ríkisstjórn í haust verði aftur hægt að hefja þá vinnu að gera breytingar á þessu rangláta kvótakerfi.