145. löggjafarþing — 119. fundur,  26. maí 2016.

stjórn fiskveiða.

786. mál
[18:51]
Horfa

Frsm. atvinnuvn. (Lilja Rafney Magnúsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég tel að hlutfallið sé allt of lágt. En vilji þessarar ríkisstjórnar er að hræra bara í þessum potti og gera alla óánægða. Talað er um að draga úr línuívilnun, breyta hlutföllum í almenna byggðakvótanum, en að strandveiðarnar standi í stað, að ekki verði hægt að horfa á þann pott vaxa áfram þótt aukning verði í tillögum frá Hafrannsóknastofnun og sjávarútvegsráðherra leggi til aukningu. Núna eru 239 þús. tonn og má búast við tillögum um aukningu seinni partinn í júní, kannski 21 þús. tonn til viðbótar. Þá er það komið í 260 þús. tonn. Ég sé ekki fram á að áhugi verði á því að láta t.d. strandveiðipottinn aukast hlutfallslega í þeim efnum, heldur að það sé eitthvert þak þar. Ég sé voða lítinn tilgang með því að vera að hræra í þessum 3,5% fram og til baka, sem gerir þá sem fyrir eru og treyst hafa á þennan félagslega hluta veikari, þ.e. byggðir og marga sem eru með minni útgerðir og eru í krókaaflamarkskerfinu og reyndar aðra líka. Það þarf bara að stokka allt upp eins og hv. þingmaður veit.

Ég er áfram mjög fylgjandi því að útfæra kerfið þannig að það sé öflugur leigupottur sem vaxi, en þó sé alltaf að lágmarki eitthvert ásættanlegt magn sem fari í hann, en hann taki auðvitað einhverjum sveiflum eftir ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar og aukningu, stundum getur sveiflan verið niður á við, (Forseti hringir.) en að hlutfallið sé að lágmarki um 15% heildarúthlutunar aflaheimilda.