145. löggjafarþing — 119. fundur,  26. maí 2016.

stjórn fiskveiða.

786. mál
[18:55]
Horfa

Frsm. atvinnuvn. (Lilja Rafney Magnúsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég hef talað fyrir því og lagt fram þingmál um að byggðatengja aflaheimildir. Ég held að byggðatengdar aflaheimildir hefðu bjargað miklu í gegnum árin ef þær hefðu verið til staðar, t.d. á Flateyri, ef þar væru alltaf 1 þús. tonn sem væru bundin byggðinni og engin útgerðarmaður gæti selt frá sér allar aflaheimildirnar og skilið sjávarplássið eftir slyppt og snautt sem byggði þessar aflaheimildir upp með honum með vinnslu í fiskvinnslunni og með sjósóknarbátunum hjá viðkomandi aðila.

Þess vegna hef ég talað fyrir því að byggðatengja aflaheimildir af einhverjum lágmarksgrunni. Það eru ekki endilega mörg sjávarpláss sem þurfa á því að halda og væri útlátalaust fyrir kerfið eins og það er núna að gera það. Það væri þá einhver gulrót fyrir svona byggðir að gera út frá þessum stöðum af því að það væru að lágmarki einhver þúsund tonn bundin við þessi sjávarpláss, sem eru alltaf í vanda og verða áfram í vanda og verða alltaf með einhverja plástra frá Byggðastofnun ef ekkert breytist frá því sem nú er.

Ég hef líka talað fyrir því, alveg eins og hv. þingmaður, að gera jákvæðar breytingar á strandveiðikerfinu miðað við reynsluna, og koma með fasta daga. Það er ekkert lögmál að einhverjir fastir dagar verði framseljanlegir. Það er bara mannanna verk að ákveða hvernig lögin eru. Það gerist ekki bara með tímanum heldur gerist það ef misvitrir stjórnmálamenn fara að leyfa slíkt. Slíkt á ekki að leyfa miðað við reynsluna. Þess vegna hef ég talað fyrir því að það sé góð breyting að koma á föstum dögum í strandveiðikerfinu.