145. löggjafarþing — 119. fundur,  26. maí 2016.

stjórn fiskveiða.

786. mál
[19:13]
Horfa

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni hans ræðu. Eitt af því sem hefur valdið byggðunum búsifjum er það þegar útgerðin leggur upp laupana eða ákveður að flytja sig um set og eftir situr byggðarlag í sárum. Um leið og kvótahafinn hverfur úr byggðarlaginu fer oft allt með, fiskvinnslan fer líka með.

Mig langar því að velta upp og spyrja hv. þingmann um afstöðu hans til þeirrar hugmyndar sem hefur stundum komið upp í þessari umræðu, þ.e. að aðskilja veiðar og vinnslu. Því að ef vinnsluheimildirnar og vinnsluleyfið væri áfram í byggðarlaginu og væri ekki eins háð útgerðaraðilanum og ekki endilega órjúfanlegt samband milli kvótans og þess að vinna aflaheimildirnar væri staðan kannski betri sums staðar. Ég nefni bara staði eins og Þingeyri og Flateyri sem hafa komið mjög illa út úr röskun af þessu tagi. Mér þætti fróðlegt að heyra hver afstaða þingmannsins er til þessarar hugmyndar sem hefur oft og einatt komið inn í umræðuna en einhvern veginn aldrei orðið að neinu og alltaf mætt andstöðu, aðallega þó hjá útgerðinni sem sér sér hag í því að hafa alla virðislínuna frá upphafi til enda. En nú erum við kannski að horfa á þetta frá öðrum sjónarhóli sem er þá sjónarhóll byggðarlagsins.