145. löggjafarþing — 120. fundur,  30. maí 2016.

þjónusta við börn með geðvanda eða fjölþættan vanda.

730. mál
[15:18]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Páll Valur Björnsson) (Bf):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. heilbrigðisráðherra fyrir að gefa sér tíma til að svara fyrirspurn minni.

Þau ánægjulegu tíðindi gerðust í vor að geðheilbrigðisáætlun og stefna til fjögurra ára var samþykkt í þinginu og eru flestir sammála um að hún sé mjög jákvætt fyrsta skref í þá átt að koma þessum mikilvæga málaflokki í ásættanlegt horf.

Í febrúar síðastliðinn skilaði Ríkisendurskoðun skýrslu til Alþingis um geðheilbrigðisþjónustu við börn og unglinga, 2. og 3. þjónustustig. Þar kemur fram að sá langi biðtími sem hefur einkennt heilbrigðisþjónustu við börn og unglinga sé óviðunandi.

Ríkisendurskoðun segir að auk þess að ganga gegn lögbundnum skyldum ríkisins stefni þessi langa bið bæði langtímahagsmunum þeirra barna sem í hlut eiga í tvísýnu sem og velferð borgarinnar. Þar segir að ef ekki sé tekið á markvissan hátt á geðheilsuvanda barna og unglinga um leið og hans verður vart aukist til muna líkur á þungbærum og langvarandi afleiðingum og jafnvel að örorka komi síðar fram.

Í skýrslu Ríkisendurskoðunar segir enn fremur að stjórnvöld hafi ótvíræðar skyldur þegar kemur að geðheilbrigðisþjónustu við börn og unglinga. Lög um heilbrigðisþjónustu, lög um réttindi sjúklinga, lög um málefni fatlaðs fólks og samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins tryggi börnum og unglingum rétt til eins fullkominnar heilbrigðisþjónustu og tök eru á að veita og feli stjórnvöldum þá skyldu að sjá þeim fyrir þeirri umönnun sem velferð þeirra krefst.

Í skýrslunni segir að þörf barna og unglinga hér á landi fyrir ítar- og sérþjónustu hafi ekki verið metin en gengið hafi verið út frá sambærilegri þjónustuþörf hér á landi og í öðrum löndum. Samkvæmt því megi reikna með að um 16.000 börn og unglingar hér í landi séu í þeirri stöðu að þau muni einhvern tíma þarfnast ítar- eða sérþjónustu vegna geðheilsuvanda.

Herra forseti. Um þetta segir ríkisendurskoðandi: Fari hluti þessa hóps á mis við þá þjónustu má draga í efa að stjórnvöld standi við skuldbindingar sínar og að viðunandi árangri sé náð.

Úttekt Ríkisendurskoðunar bendir til að svo geti verið. Það segir sig sjálft að lífsgæði og tækifæri þeirra barna sem eiga við fjölþættan eða geðrænan vanda að stríða til að taka þátt í menntun og leik og starfi til jafns við önnur börn er í húfi.

Þetta eru því afar miklir hagsmunir og gríðarlegt réttlætismál að samfélagið geri það sem í þess valdi stendur til þess að bæta líðan og tækifæri þessara barna. Hér er ekki aðeins lífsgæði barnanna sjálfra í húfi heldur framtíðarmöguleikar þeirra til að vera virk í samfélaginu með þátttöku og virkni á vinnumarkaði. Munu þau getað stundað nám og síðan sinnt margvíslegum störfum og skapað verðmæti, öllu samfélaginu til framdráttar og greitt til þess skatta og skyldur, eða munu þau verða dæmd til óvirkni vegna geðrænna erfiðleika og verða háð fjárhagslegum stuðningi frá samfélaginu?

Ég vil beina eftirfarandi spurningu til hæstv. heilbrigðisráðherra: Hefur á vegum Stjórnarráðsins verið lagt mat á þjóðhagslegan ávinning af þjónustu við börn með geðvanda eða fjölþættan vanda?