145. löggjafarþing — 120. fundur,  30. maí 2016.

þjónusta við börn með geðvanda eða fjölþættan vanda.

730. mál
[15:26]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Ég vil einnig þakka hv. þm. Páli Val Björnssyni fyrir að taka upp þetta mikilvæga mál. Við sem erum í Norðausturkjördæmi höfum fjallað um geðheilsu barna og unglinga undanfarin missiri. Við höfum haft áhyggjur af stöðu mála. Mér skilst reyndar að mál séu að komast í ágætishorfur, en þetta er þannig málefni að það má í rauninni ekkert undan láta. Ég vil taka undir með öllum, og einnig hæstv. heilbrigðisráðherra, um að við getum alltaf gert betur í þessum málaflokki. Við höfum stigið ágæt skref að undanförnu, en þetta er sá málaflokkur sem ég held að við alþingismenn ættum að hafa í forgrunni á næstu missirum vegna þess að við viljum búa í samfélagi þar sem þessi mál eru í góðu lagi.