145. löggjafarþing — 120. fundur,  30. maí 2016.

viðskipti við Nígeríu.

716. mál
[15:34]
Horfa

utanríkisráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Um er að ræða afar mikilvægt en á sama tíma erfitt mál. Við þekkjum hve erfitt það reynist ríkjum að glíma við mjög snarpan samdrátt í gjaldeyristekjum líkt og átt hefur sér stað núna í Nígeríu. Forsaga málsins er sú að um mitt ár 2015 setti seðlabanki Nígeríu reglur sem takmarka gjaldeyrisyfirfærslur vegna innflutnings til landsins á ýmsum vörutegundum, meðal annars sjávarafurðum. Voru reglurnar settar í ljósi þess gífurlega samdráttar sem orðið hefur í gjaldeyristekjum þjóðarinnar vegna lækkandi olíuverðs, en langstærstur hluti af útflutningsverðmætum Nígeríu kemur frá olíuviðskiptum.

Hinar nýju reglur hafa haft alvarlegar afleiðingar fyrir útflutning sjávarafurða frá Íslandi til Nígeríu, sem eru fyrst og fremst þurrkaðar sjávarafurðir og einnig frystur makríll á síðustu árum. Í kjölfar ákvörðunar seðlabanka Nígeríu stofnaði utanríkisráðuneytið samráðsvettvang með fulltrúum útflytjenda, samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi og Seðlabanka Íslands sem hafa hist reglulega. Á þeim vettvangi hefur verið rætt um þá stöðu sem upp er komin í viðskiptum við Nígeríu og hvernig hugsanlegt sé að finna leiðir til að auka viðskiptin að nýju. Utanríkisráðherra sendi jafnframt bréf til utanríkisráðherra Nígeríu í fyrra sumar og óskaði eftir skýringum á hinum nýju reglum seðlabanka Nígeríu. Slíkt hið sama gerði Seðlabanki Íslands í bréfi til seðlabanka Nígeríu um sama leyti. Því miður hefur ekkert svar borist við þeim erindum. Þá hefur málið verið tekið upp á vettvangi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar, WTO, að frumkvæði Íslands og annarra ríkja. Í þeim efnum hefur verið kannað hvort reglur seðlabanka Nígeríu standist alþjóðlegar skuldbindingar sem Nígería hefur gengist undir á vettvangi stofnunarinnar. Að auki má þess geta að í lok síðustu viku í Ósló átti sér stað fundir milli nígeríska utanríkisráðherrans og íslenskra embættismanna sem er liður í undirbúningi að fyrirhugaðri heimsókn til Nígeríu. Einn vandinn við að sinna hagsmunum Íslands í þessum efnum hefur verið sá að lengi var ekki starfandi ríkisstjórn í Nígeríu, eftir valdatöku nýs forseta í mars 2015. Ríkisstjórn var hins vegar skipuð í lok þessa árs og afhenti sendiherra Íslands í London trúnaðarbréf sitt í Nígeríu í mars síðastliðnum. Við það tækifæri voru viðskipti landanna tekin upp og áhyggjum lýst yfir þeirri stöðu sem þar er uppi.

Til að svara fyrstu spurningu hv. þingmanns er síðan í undirbúningi að utanríkisráðherra fari til Nígeríu með viðskiptasendinefnd til þess að ræða frekar þau vandamál sem uppi eru í viðskiptum landanna. Er stefnt að því að slík sendinefnd fari til Nígeríu síðar í sumar eða um leið og aðstæður leyfa. Fóru fulltrúar utanríkisráðuneytisins nýlega til Nígeríu til að undirbúa slíka heimsókn.

Sem svari við annarri spurningu hv. þingmanns hefur verið ræddur sá möguleiki að koma á vöruskiptum milli Íslands og Nígeríu með sjávarafurðir og olíu. Of snemmt er þó að segja til um hvort sá möguleiki sé fyrir hendi. Verður það mál ásamt öðrum tekið upp í fyrirhugaðri heimsókn til Nígeríu.