145. löggjafarþing — 120. fundur,  30. maí 2016.

viðskipti við Nígeríu.

716. mál
[15:43]
Horfa

utanríkisráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég ítreka þakkir mína til hv. fyrirspyrjanda fyrir að varpa ljósi á stöðu mála á Nígeríumarkaði sem hefur verið útflytjendum okkar afar mikilvægur í áranna rás. Ég tek undir þau sjónarmið fyrirspyrjanda að hér er um brýnt mál að ræða og afar brýnt að við fáum farsæla lausn í þetta mál og mun ég leggja mig mikið fram við það.

Ég reifaði í mínu fyrra svari ástæður þess að lokun Nígeríumarkaðar hefur valdið fiskútflytjendum þeim búsifjum sem raun ber vitni. Hér er um að ræða aðstæður sem við eigum erfitt með að hafa áhrif á, en á móti kemur að utanríkisráðuneytið hefur leitað ýmissa leiða til að reyna að rétta af þessa stöðu og munum við vissulega halda áfram þeirri vinnu. Ég vil líka taka það fram, vegna þess að það kom fram í annarri fyrirspurn hvort við værum að horfa til annarra markaða, að það erum við svo sannarlega að gera. Ég vænti þess að sú vinna sem lagt hefur verið í muni jafnvel skila árangri á næstu missirum.

Varðandi tollana og þá hækkun sem á þeim varð þá er það eitt af því sem við munum taka upp. Það er mjög erfitt að segja á þessum tímapunkti hvort það muni skila árangri, en við munum taka það upp. Eins hvort það væru einhverjar aðrar afurðir sem kæmu til greina í einhverjum skiptum, en þetta verður mjög fróðlegt að ræða þegar að því kemur. Ég ítreka að við munum leggja mikla vinnu í fyrirhugaða sendiför til Nígeríu og við vonumst til þess að hún verði árangursrík.