145. löggjafarþing — 121. fundur,  30. maí 2016.

almennar stjórnmálaumræður.

[20:18]
Horfa

Óttarr Proppé (Bf):

Herra forseti. Ástkæru landar. Við erum hér samankomin í lok þingvetrar. Það er sagt að í Austurlöndum sé til svohljóðandi málsháttur: „Megir þú lifa athyglisverða tíma.“ Okkur hefur aldeilis orðið að þeirri ósk í vetur. Við Íslendingar stöndum á tímamótum nú sem sjaldan fyrr og það á sérstaklega við um íslensk stjórnmál. Verum heiðarleg. Þingveturinn sem nú er að líða hefur hreint út sagt verið ömurlegur. Það er eina orðið yfir það. Afhjúpanir úr Panama-skjölunum, viðtalið fræga við fyrrverandi forsætisráðherra, afsögn forsætisráðherra, og allt það fár hafði djúpstæð áhrif, ekki bara á stjórnmálin heldur á okkur Íslendinga alla. Fólk var rétt farið að draga andann eftir efnahagshrunið 2008, þar sem kom í ljós að grundvallarforsendur reyndust að mörgu leyti byggðar á sandi. Við trúðum og vonuðum svo heitt og innilega að við værum komin vel á veg með að komast á lappirnar, að við ætluðum að læra af þessum mistökum. En uppljóstranir Panama-skjalanna voru eins og högg í magann. Þau staðfestu að það væri dýpra siðrof í íslensku samfélagi en gefið hafði verið í skyn. Þau staðfestu að enn búa tvær þjóðir í þessu landi. Þeir sem búa við forréttindi, innmúruð völd, tækifæri umfram aðra, og síðan eru það allir hinir.

Upplýsingum um tengsl stjórnmálamanna við vafasama viðskiptahætti aflandsfélaga, og það að hafa vísvitandi leynt þeim tengslum, reyndist þjóðinni ómögulegt að kyngja. Enda er það gjörsamlega óásættanlegt. Þetta er hreinlega ekki heiðarlegt. Það er ekkert skrýtið við það að þjóðfélagið hafi farið á hvolf og stjórnmálalífið sé lamað eftir.

Fjömiðlakastljós heimsins beindist enn á ný að Íslandi og maður finnur að umheimurinn upplifir landið okkar vera í djúpri krísu. Eitt það fyrsta sem maður heyrir þegar maður segist vera frá Íslandi eru spurningar um Panama-skjölin. Við þetta verður ekki búið. Það er ekki hægt að bíða þetta ástand af sér og vona að það settlist. Það þarf að bregðast við með afgerandi hætti.

Ákvörðunin um að flýta kosningum var góð og sennilega óumflýjanleg. Við í Bjartri framtíð tókum undir kröfuna um að best væri að kjósa strax en treystum því að það verði þó alla vega kosningar í haust. Það er ekki bara þörfin á endurnýjuðu umboði og/eða uppstokkun sem kallar á að flýta kosningum, það samtal við almenning sem þarf að eiga sér stað getur ekki beðið. Starfið í þinginu hefur verið ágætt síðustu vikur. Nýjar áherslur og frumvörp gegn skattaskjólum og aflandsfélögum eru mikilvæg en líka, því miður, áminning um það að þau höfðu ekki komið fram fyrr en eftir þessar afhjúpanir.

Fyrir nokkrum vikum hitti ég þýska fjölmiðlakonu sem spurði mig beint út, í lauslegri þýðingu, með leyfi forseta:

„Nú hefur komið í ljós að það eru fleiri Íslendingar í Panama-skjölunum en í nokkru öðru landi miðað við höfðatölu. Finnst þér það vera merki um að Ísland sé óheiðarlegra samfélag en önnur?“

Ég skal bara viðurkenna að þessi spurning kom verulega á mig. Hún gerði það vegna þess að ég upplifi Íslendinga upp til hópa sem heiðarlegt og réttlátt fólk. En það er ekki hægt að loka augunum fyrir því að það er eitthvað brotið hjá okkur. Þessar tölur ljúga ekki. Við þurfum að viðurkenna það og við þurfum að taka á því. Íslenskt samfélag er nefnilega að svo mörgu leyti frábært. Ísland er ríkt land af náttúruauðlindum. Þjóðin er kraftmikil og í eðli sínu bjartsýn. Við höfum það að mörgu leyti gott. En síðustu mánuðirnir hafa leitt í ljós að það lúra vandamál undir glansmyndinni. Lóttóvinningar á borð við aukinn ferðamannastraum, makrílgengd og lágt olíuverð hafa stuðlað að endurreisn efnahagslífsins. En það er ekki hægt að treysta endalaust á lottóvinninga. Það þarf meira til. Nýtum lærdóminn af Panama-skjölunum til breytinga. Breytum kerfinu þar sem það er ekki að virka. Byggjum á því sem virkar og gerum það enn betra. Tímar meðvirkni og fortíðarþrár eru liðnir. Það er búið að gefa því séns. Það hefur bara ekki gengið upp.

Ungt fólk er framtíðin. Ég hef þá sýn að ungt fólk hafi tækifæri til að mennta sig, til þess að geta eignast eigið húsnæði og sjái fram á atvinnulíf sem er fjölbreytt, skapandi og hentar því til framtíðar. Á þetta höfum við í Bjartri framtíð lagt áherslu í okkar störfum og munum berjast fyrir því áfram.

Stundum er sagt að við tökum jörðina í arf frá forfeðrum okkar. Ég vil meina að við séum ekkert síður, og jafnvel miklu frekar, með hana að láni frá komandi kynslóðum. Þetta á svo sannarlega við um náttúruna. En þetta á líka við um samfélagið allt, efnahagslífið og mannlífið. Réttlæti og gagnsæi eru grunngildi sem skipta miklu máli fyrir samfélagið í dag en þau eru algjör forsenda inn í framtíðina.

Við þurfum að hafa kjark til þess að viðurkenna vandann og hugrekki til þess að taka á honum. Við þurfum sýn um heiðarlegt og réttlátt og frjálslynt samfélag þar sem kraftar allra nýtast og tækifærin bjóðast öllum en ekki bara sumum. Við þurfum að tryggja að arður af sameiginlegum auðlindum okkar nýtist öllu samfélaginu en ekki bara sumum. Við þurfum að þora að hugsa til framtíðarinnar en ekki bara sætta okkur við að lappa upp á það sem einu sinni gekk og vona síðan að það reddist. Samtal við þjóðina um þessa sýn og um grundvallargildi getur ekki beðið. Ég hef tröllatrú á því og mikla von um að það sé vel hægt að byggja ofan á það sem er gott í íslensku samfélagi. Þetta ferðalag er rétt að byrja. Og við okkur sem störfum á vettvangi stjórnmála segi ég: Höfum hugrekki til að hafa sýn á framtíðina og taka opið samtal um hana. Verum opin. Verum gagnsæ, og um umfram allt, verum heiðarleg. Annað er hreinlega ekki í boði. — Ég þakka þeim sem hlýddu. Gleðilegt sumar.