145. löggjafarþing — 121. fundur,  30. maí 2016.

almennar stjórnmálaumræður.

[20:24]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Kæru landsmenn. Nú hef ég setið á Alþingi í þrjú ár og það hefur verið lærdómsríkur tími. Hér lærir maður margt um allt milli himins og jarðar. Ég á jafnan auðveldara nú en áður með að útskýra fyrir fólki ýmsa anga alls konar mála. Ég get betur útskýrt löreglumál, dómsmál, hlutverk ýmissa stofnana og þar fram eftir götunum. Ég kann að fletta upp í þingskjölum og leita að upplýsingum og get með því móti oft varpað ljósi á mál sem öðrum kann að finnast erfitt að finna skýrar upplýsingar um. En það er eitt sem ég á sífellt erfiðara með að útskýra og það er pólitíkin sjálf, ekki stjórnmálin heldur þetta fyrirbæri — pólitíkin — pólitík sem ekki virðist læra.

Ég sé vandamálin mörg frekar skýrt og tel mig meira að segja þekkja lausnina á flestum þeirra. Ég gæti haldið langan pistil um það sem þarf að gera í lýðræðisumbótum og umbótum á störfum þingsins. Svo er ég minntur á eitthvað eins og lekamálið. Jú, vissulega eftir ár af valdabrölti og játningu aðstoðarmanns þá hrökklaðist þáverandi hæstv. innanríkisráðherra frá og það átti að heita uppgjör, en stendur eftir sem meintar pólitískar ofsóknir sem vesalings þáverandi ráðherra hafi orðið fyrir. Áfram hélt pólitíkin án þess að læra. Svo komu Panama-skjölin nýlega. Jú, eftir fordæmalaus mótmæli fyrir utan Alþingi hrökklaðist þáverandi hæstv. forsætisráðherra frá en restin hélt velli, ríkisstjórn sjálfs forsætisráðherra þáverandi. Og áfram hélt pólitíkin án þess að læra.

Halda átti þjóðaratkvæðagreiðslu um breytingar á stjórnarskrá meðfram forsetakosningum en ekki varð af því. Þar áður hafði tilraun verið gerð til að slíta viðræðum við Evrópusambandið án atbeina þings og hvað þá þjóðar þar sem auðséð var að ekki mundi takast að sannfæra meiri hluta þjóðarinnar um ágæti þess að slíta ferlinu. Og áfram hélt pólitíkin án þess að læra.

Jafnvel án nauðsynlegra lýðræðisumbóta spyr ég mig: Hvernig getur þetta verið? Nú segja menn að það eigi að kjósa til Alþingis í haust. Ég er reglulega spurður hvort ég trúi því. Mig langar að trúa því, ekki vegna þess að við í minni hlutanum höfum beðið um kosningar í haust, heldur vegna þess að ég vona að enn eitt loforðið verði ekki svikið, enn eitt valdabröltið og kjósendum enn einu sinni gefinn fingurinn, allt fyrir valdið. Eins mikið og mig langar að trúa því, þegar ég heyri málsmetandi þingmenn stjórnarmeirihlutans fullyrða að auðvitað verði kosið í haust, þá hreinlega get ég ekki alveg trúað því. Fólk sem mér líkar vel við, fólk sem mér finnst að ég ætti að trúa; ég er fyrstur manna til að leyfa öðrum að njóta vafans. En ef ég segðist viss um að kosið yrði í haust væri ég að ljúga að sjálfum mér og öðrum því að ég er mjög langt frá því að vera viss; reynslan kennir mér annað.

Virðulegi forseti. Ég hlusta á sjálfan mig og leiðist þessi bölmóður í sjálfum mér og ég er viss um að hér eru þingmenn sem leiðist hann líka. En það sem mér leiðist enn meira er að vita með vissu að það væri ábyrgðarleysi að halda honum ekki til haga vegna þess að íslenskri pólitík virðast fá takmörk sett; stjórnmálamenn eru til í að harka af sér til þess eins að halda í völdin. Það er eina mynstrið sem ég sé í öllu þessu rugli, valdagræðgin. Þetta er ekki ágreiningur um pólitísk efnisatriði, virðulegi forseti, þetta er pólitíkin sjálf. Það er ekki hægt að útskýra þetta út frá því að við séum ólíkir flokkar með ólíkar áherslur. Þetta er spurning um viðhorf ráðamanna til valds. Vald sem krefst aðhalds, ekki bara kjarks og þrautseigju.

Ég hef haldið marga pistla um nauðsyn lýðræðisumbóta í þessari pontu, virðulegi forseti, og ég stend við það. En stjórnmálamenn ættu líka að íhuga sinn eigin þátt. Ég vona að í komandi kosningum verði áfram eftirspurn eftir breytingum sem storka þessu valdi og leggja leið þess þangað sem það á heima, til þjóðarinnar sjálfrar. Það væri lexía vel lærð.