145. löggjafarþing — 121. fundur,  30. maí 2016.

almennar stjórnmálaumræður.

[20:36]
Horfa

Elín Hirst (S):

Virðulegi forseti. Góðir landsmenn. Mig langar til að ræða þrennt við ykkur hér í kvöld. Í fyrsta lagi heilindi og traust í stjórnmálum. Í öðru lagi stöðu og framtíð heilbrigðiskerfisins. Og loks gerbreyttan veruleika stjórnmálaumræðunnar þar sem almenningur getur nú komið sjónarmiðum sínum á framfæri með einföldum og skjótvirkum hætti.

Fyrst að heilindum og trausti í stjórnmálum. Það tekur langan tíma að byggja upp traust en traust getur líka glatast á augabragði ef menn bregðast. Við Íslendingar erum enn þá að glíma við eftirmála hrunsins þar sem dró úr trausti á ýmsar helstu stofnanir samfélagsins. Þess vegna er þráðurinn oft stuttur hjá mörgum, þolinmæðin lítil og það reynir á traust. Menn ávinna sér traust með verkum sínum og viðmóti. Þess vegna er afar mikilvægt að við stjórnmálamenn störfum fyrir opnum tjöldum, séum dugleg við að miðla upplýsingum, tölum á mannamáli og síðast en ekki síst hlustum á raddir annarra. Ég tel að ef menn hér á Alþingi fylgja sannfæringu sinni, komi fram af heilindum í samskiptum bæði innan og utan þings og séu sjálfum sér samkvæmir kunni fólk að meta það og það skapi traust. Skoðanaágreiningur er eðlilegur hluti stjórnmálanna og skipar okkur í ólíka flokka eða fylkingar. En það er gagnlegt skiptast á skoðunum á heilbrigðan hátt fyrir alla málsaðila. Það er gagnlegt fyrir alla að heyra sem fjölbreyttust rök áður en komist er að niðurstöðu í flóknum málum.

Það blasti við okkur Íslendingum og raunar allri heimsbyggðinni í byrjun apríl þegar svokölluð Panama-skjöl voru birt að ýmislegt í efnahagskerfinu er í ólagi. Það voru því góð skref sem stigin voru nýlega af hálfu fjármálaráðherra þar sem hann kynnti margþættar aðgerðir til að tryggja að allir sitji við sama borð þegar kemur að greiðslu skatta. Þetta eru aðgerðir sem taka bæði til stjórnkerfisins hér innan lands sem og samstarfs sem hafið er á alþjóðavettvangi meðal helstu þjóða heims.

Það standa ríkir almannahagsmunir til þess að leikreglurnar séu skýrar og allir sitji við sama borð. Sala ríkiseigna, eigna almennings, bæði banka og annarra eigna frá slitabúum föllnu bankana, sem við eigum fyrir höndum á næstu missirum, þarf að vera opin og gagnsæ og hafin yfir allan vafa.

Góðir landsmenn. Það er ljóst að heilbrigðiskerfið okkar hefur verið svelt og það mun taka talsverðan tíma með skipulegri uppbyggingu áður en við getum sagt að við búum við úrvalsheilbrigðisþjónustu. En það á eindregið að vera stefnan að mínum dómi og núverandi ríkisstjórn hefur svo sannarlega sýnt það í verki. Endurbygging Landspítalans við Hringbraut er hafin af miklum krafti. Það er án vafa mikilvægasta skrefið sem stigið er í átt til alvöruumbóta í heilbrigðiskerfinu. Það er líka mikilvægt að hugsa til framtíðar og að besta fyrirkomulagið verði ef til vill með þeim hætti að Landspítalinn verði fyrst og fremst bráðasjúkrahús. Ef við hugsum til framtíðar, eins og áður segir, að hér verði settur á fót annar nútímaspítali sem væri fyrst og fremst bæklunar- og endurhæfingarspítali, spítali sem væri mun hagkvæmari í rekstri en gerist og gengur á bráðasjúkrahúsi, bæði eftir slys og almenn veikindi fólks.

Ég vil þó nefna að aukið fjármagn er eitt, bætt heilbrigðisþjónusta er annað og um leið og við leggjum meira fé en nokkru sinni fyrr til heilbrigðisþjónustu verðum við að þora að taka umræðuna um stjórnun stofnana og skilvirkni.

Góðir landsmenn. Við búum við annars konar lýðræði en fyrir bara nokkrum árum. Tæknin hefur gert mögulegt að hver og einn tjái sig með einföldum og ódýrum hætti í rauntíma. Raddir eru margar og þær geta sannarlega haft góð áhrif fyrir þjóðfélag okkar og þegar þær sameinast í jákvætt afl eins og til dæmis í undirskriftasöfnun Kára Stefánssonar í þágu heilbrigðismála, þá er afar gott gert.

Ég tel þó að þessi staðreynd breyti ekki grunneðli stjórnmálanna. Það þarf einhver að stjórna. En á hinn bóginn leikur enginn vafi á því að umhverfi þeirra sem stjórna landinu er annað og fjölbreyttara en nokkru sinni. Þróun lýðræðis í þá veru að virkja borgarana betur þannig að þeir geti lagt sitt af mörkum til lýðræðislegrar umræðu er svo sannarlega af hinu góða. Í heimi sem verður stöðugt flóknari hlýtur það að vera afar verðmætt fyrir stjórnmálin að heyra sem flest sjónarmið og nota upplýsingaflæðið sem tæki til að finna lausnir í flóknum málum. Hvort sem er í ferðaþjónustu, í umgengni um náttúruna, sölu ríkiseigna, þróun heilbrigðiskerfisins eða uppbyggingu húsnæðiskerfisins.

Ég hefði í þessu sambandi einnig vilja sjá að við næðum einingu um útfærslu á þjóðaratkvæðagreiðslum á Íslandi á þessu kjörtímabili, svo sem um lágmarksþátttöku og hversu stóran meiri hluta þurfi til að niðurstaðan sé gild.

Góðir landsmenn. Framtíðin er björt fyrir okkur Íslendinga, við getum öll glaðst yfir því. Við verðum líka að vanda okkur, vera skynsöm, sanngjörn og hjálpsöm við þá sem á því þurfa að halda.