145. löggjafarþing — 121. fundur,  30. maí 2016.

almennar stjórnmálaumræður.

[20:42]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg):

Góðir áheyrendur. Á þeim fáu mínútum sem ég hef til ráðstöfunar langar mig fyrst og fremst að segja að það þarf meiri pólitík í þennan sal. Meiri vinstri pólitík. Ef verkefni stjórnarandstöðu væri einvörðungu að streitast gegn ríkjandi stjórnvöldum þá hefðum við náttúrlega óskaríkisstjórn. Á fyrsta degi lækkaði hún veiðigjöldin. Á öðrum degi slátraði hún auðlegðarskattinum og tók samhliða að daðra við einkavæðingu. Síðan kom þetta allt koll af kolli eins og á færibandi.

En þetta er að sjálfsögðu engin óskastaða. Upp í hugann kemur viðtal við ritstjóra breska ádeilutímaritsins Private Eye eftir nýafstaðnar kosningar í Bretlandi einhvern tíma í kringum 1970, en þá hafði Íhaldsflokkurinn unnið mikinn sigur. Ritstjórinn kvað niðurstöður kosningarinnar vera himnasendingu fyrir tímarit sitt. Nú yrði úr nógu að moða, en bætti því svo við að sem þjóðfélagsþegn þá væri hann að sjálfsögðu miður sín.

Auðvitað vildum við helst að inn í þennan þingsal væru aðeins borin mál sem við öll teldum vera þjóðþrifamál, vera sanngirnismál, mál sem við værum sátt við sem þjóðfélagsþegnar. Vissulega á þetta við um mörg verkefni Alþingis. Ég hef sagt í gamni og kannski líka stundum í alvöru að ef úr heilaforriti sérhvers þingmanns væri tekin vitneskjan um hvaða flokki hann eða hún tilheyrði þá yrði margt auðleystara enda létu menn þá eigin dómgreind og kannski líka sanngirnina oftar ráða. Flokksböndin geta nefnilega verið hamlandi.

En lífið er ekki alveg svo einfalt utan dyra og þannig getur það heldur varla átt að vera í þessum sal. Í samfélaginu, ekki bara hér heldur í heiminum öllum, er tekist á um hagsmuni. Hópar, stéttir og ríki takast á. Sumir vilja orða það svo að neysluhyggja mannsins takist á við hagsmuni móður jarðar.

Þessi hagsmunabarátta er háð undir pólitískum merkimiðum, peningafrjálshyggju, félagshyggju, þ.e. hægri stefnu og vinstri stefnu. Þetta er ekki úrelt skipting eins og sumir halda fram sem telja að stjórnmál eigi bara að snúast um spjall yfir kaffibolla. Vissulega eru málefnalegar samræður nauðsynlegar og þess vegna yfir kaffibolla. En kjósendur verða að fá að vita hver eru raunveruleg áform stjórnmálasamtaka.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur þannig í kosningum iðulega fengið stuðning margra þeirra sem vilja ekki markaðsvæðingu heilbrigðiskerfisins því að flokkurinn hefur vísvitandi talað óskýrt um þetta óvinsæla málefni fyrir kosningar.

Vilja stjórnmálamenn selja alla bankana eða vilja þeir samfélagsbanka? Er alvara þar á bak við? Hvað með kvótakerfið? Varla verður gefist upp við að breyta því kerfi. Og hvað með heilbrigðiskerfið? Þar takast raunverulegir hagsmunir á. Það er í alvöru byrjað að dæla út arðgreiðslum í heilbrigðiskerfinu.

Við borgum þetta að sjálfsögðu allt, annaðhvort sem skattgreiðendur eða sem sjúklingar. Sum okkar munu geta borgað, önnur ekki, og þannig verður það. Kerfi sem mismunar. Vilja menn markaðshyggju í heilbrigðiskerfinu eða vilja menn félagshyggju? Vilja menn hægri eða vilja menn vinstri?

Ágætur maður skrifaði mér eftir að ég birti pistil í helgarblaði Morgunblaðsins nú um helgina um tollasamningana sem opna fyrir stóraukinn innflutning á kjötvöru. Ég vísaði þar á yfirlýsingar Verkalýðsfélagsins Framsýnar sem varar við afleiðingum fyrir íslenskan matvælaiðnað. Bréfritari sagði að ég yrði að gá að því að Framsýn væru hagsmunatengd samtök. Það er að sjálfsögðu rétt. Störf eru hagsmunir og það eru líka hagsmunir að verja þá auðlind sem sjúkdómafríir bústofnar og heilnæm innlend matvælaframleiðsla er. Og einhvers staðar inn í þennan hagsmunaslag koma stóru verslunarkeðjurnar, þær sömu og vilja að þessi þingsalur banni með lögum að aðrir en einkaaðilar fái að selja áfengi í verslunum sínum.

Halda menn að það séu ekki hagsmunir einhverra að draga úr byggingarkröfum, aðgengi og sólarljósi fyrir fátækan leigumarkað? Auðvitað koma hagsmunir þarna alls staðar við sögu. Pólitík er nefnilega að uppistöðu til hagsmunabarátta. Annað er viðfangsefni fagfólks. Um leið og við vísum pólitískri baráttu úr þessum sal þá eigum við ekki lengi erindi hingað.

Ég spyr: Vill fólk vera í samkrulli með Donald Trump sem gæti orðið næsti forseti Bandaríkjanna eða Hillary Clinton sem er harðlínuhaukur í utanríkismálum? Þetta eru næstu leiðtogar NATO, hernaðarbandalagsins sem Alþingi samþykkti nýlega, illu heilli, að verði áfram hornsteinn íslenskrar öryggisstefnu. Ég fullyrði að NATO er hættulegra öryggi Íslands en nokkru sinni en samt hótar núverandi ríkisstjórn því að binda okkur enn fastari böndum þessu bandalagi. Þetta eitt nægir mér til að vilja nýja ríkisstjórn að afloknum kosningum.

Auðvitað fagna ég því alltaf þegar samstaða næst í þessum sal um málefni sem við ættum að geta sameinast um. Við þurfum að vera sameinuð í baráttunni fyrir Ísland og viðkvæma og fágæta náttúru þess. Hér þekkjum við öll hvað er átt við og er þar vissulega ágreiningur um sitthvað.

En nú spyr ég í lokin: Eigum við ekki að sameinast um að tryggja sameiginlegt eignarhald okkar á Jökulsárlóni og Grímsstöðum á Fjöllum og verða þannig við áskorunum fólks úr öllum stjórnmálaflokkum, öllum starfsstéttum og öllum aldurshópum? Þessi áskorun er raunveruleg. Hún er til svart á hvítu. Það er okkar að verða við henni. — Gleðilegt sumar.