145. löggjafarþing — 121. fundur,  30. maí 2016.

almennar stjórnmálaumræður.

[20:49]
Horfa

utanríkisráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Góðir landsmenn. Um 40 þús. Íslendingar eru búsettir erlendis. Þeir búa um allan heim og hafa víkkað sjóndeildarhringinn með því að sækja sér reynslu og menntun í öðrum samfélögum. Þetta er allt í senn nútímalegt, sjálfsagt og æskilegt, en setur að sama skapi mikla ábyrgð á herðar stjórnmálamanna. Það er eitt okkar mikilvægasta samfélagsverkefni að búa svo um hnútana að þetta fólk og aðrir sem hafa ákveðið að skoða heiminn velji að snúa heim að lokinni dvöl erlendis, að Ísland verði samkeppnishæft samfélag og vel launuð störf verði í boði þar sem lífsgæði verða áfram meðal þess sem best gerist og að fólki líði vel. Slíkt samfélag verður aðeins byggt á traustum stoðum, á stöðugu og sterku efnahagskerfi, blómlegu byggða- og atvinnulífi og ábyrgri fjármálastjórn. Í þeim efnum hefur margt áunnist á kjörtímabilinu. Hagur íslenskra heimila hefur vænkast verulega og samkvæmt greiningu Seðlabanka Íslands hefur staða þeirra sjaldan verið betri. Skuldastaðan hefur gerbreyst til hins betra á örfáum árum og skuldirnar hafa ekki verið lægri síðan 1999.

Lækkun skuldahlutfallsins má að stærstum hluta rekja til leiðréttingarinnar, aðgerðar ríkisstjórnarinnar til lækkunar á höfuðstól verðtryggðra húsnæðislána og mikils hagvaxtar. Kaupmáttur launafólks hefur aukist um nærri 24% á síðustu þremur árum og Seðlabankinn áætlar að kaupmáttur ráðstöfunartekna hækki um tæp 9% í ár. Störfum hefur fjölgað hratt og atvinnuleysi er með því minnsta í Evrópu.

Alger kúvending hefur orðið á hreinni erlendri stöðu þjóðarbúsins þar sem taflinu hefur verið snúið við. Staðan hefur ekki verið betri í 50 ár. Við erum nú í styrkleikaflokki með Bretum og Frökkum en vorum áður flokkuð með Grikklandi og Kýpur. Þar er ólíku saman að jafna. Í þessari skák var farsæl lending í málefnum slitabúa fallinna fjármálafyrirtækja lykilatriði. Hún markaði þáttaskil í endurreisn fjármálakerfisins og lagði grunninn að þeim mikla árangri sem hefur náðst. Í upphafi þeirrar vinnu efuðust margir um þær hugmyndir sem Framsóknarflokkurinn lagði fram um að kröfuhafar létu af hendi hundruð milljarða. Nú blasir við að staða ríkissjóðs hefur stórbatnað, skuldir hafa þegar lækkað verulega og munu lækka enn frekar á næstu árum.

Þessi einstaka staða skapast ekki af sjálfu sér heldur endurspeglar hún þá festu og stefnu sem ríkisstjórnin hefur unnið eftir. Með henni er búið í haginn fyrir framtíðina því að vaxtagreiðslur ríkisins munu minnka um tugi milljarða. Í þessari velgengni megum við aldrei gleyma þeim sem búa við mótlæti og geta ekki nýtt sér tækifæri sem öðrum gefast. Við eigum að halda áfram að bæta hag þeirra og halda áfram að nýta efnahagslega svigrúmið til velferðar- og heilbrigðismála.

Góðir landsmenn. Vinna undanfarinna ára miðar að því að bæta hag landsmanna í nútíð og í framtíð. Við viljum að fólk geti sótt sér menntun við hæfi og komið sér upp þaki yfir höfuðið án þess að skuldsetja sig úr hófi. Við viljum í sameiningu stuðla að fjölbreyttu atvinnulífi þar sem nýjar atvinnugreinar dafna samhliða þeim hefðbundnu. Íslenski hugverkaiðnaðurinn er dæmi um slíka atvinnugrein. Hugverkageiranum hefur svo sannarlega vaxið fiskur um hrygg og hægt og hljótt er hann orðinn fjórða stoðin í útflutningi okkar til viðbótar við sjávarútveg, stóriðju og ferðaþjónustu. Útflutningstekjur af hugverkum árið 2009 námu um 160 milljörðum kr. Á síðasta ári voru þær um 250 milljarðar kr. og höfðu því vaxið um 60% á sex árum. Það er brýnt að stjórnvöld haldi áfram að styrkja umgjörð nýsköpunar, þróunar og rannsókna og í þeim efnum getur þingheimur lagt sitt af mörkum strax á næstu dögum með því að samþykkja fyrirliggjandi frumvarp sem breytir rekstrarumhverfi nýsköpunarfyrirtækja og smærri fyrirtækja til hins betra. Frumvarpið er til þess fallið að auka fjölbreytni atvinnulífsins og stuðla að því að frumkvöðlar og annað skapandi fólk kjósi að starfa og búa á Íslandi.

Góðir landsmenn. Í morgun heimsótti ég minn gamla grunnskóla, Fellaskóla í Breiðholtinu, sem var mitt annað heimili í tíu ár. Þar tók ég þátt í að afhjúpa Tungumálaregnbogann, listaverk sem undirstrikar þá staðreynd að börn í skólanum tala 23 ólík tungumál. Þau eiga ólíkan uppruna en vinna saman í fallegu skólasamfélagi þannig að ólíkir hæfileikar fá að njóta sín. Það er ekki laust við að maður hafi fundið til ábyrgðar við að hitta þetta glæsilega unga fólk. Ég trúi því að þeirra framtíð og annarra Íslendinga sé björt. Efnahagslegri uppbyggingu er að mestu leyti lokið á Íslandi og lífskjör hafa batnað umtalsvert. Ísland er með sterk spil á hendi en okkar verkefni er að spila þeim rétt út þannig að engin þjóðfélagshópur sitji eftir. — Góðar stundir.