145. löggjafarþing — 121. fundur,  30. maí 2016.

almennar stjórnmálaumræður.

[21:15]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S):

Virðulegi forseti. Kæru landsmenn. Sumarið er að birtast okkur smátt og smátt og gróðurinn byrjaður að blómstra. Þetta blómstur erum við að sjá víða annars staðar í samfélaginu. Nýsköpun er í miklum vexti, bæði í rótgrónum atvinnugreinum svo og í nýjum greinum. Þá streyma til okkar ferðamennirnir sem aldrei fyrr með tilheyrandi innspýtingu fyrir hag landsmanna. Á sama tíma falla múrar, samstarf á milli ólíkra atvinnugreina er að aukast. Hér áður fyrr samanstóð sjávarútvegurinn t.d. nær eingöngu af sjómönnum og fiskvinnslufólki, nú starfar þar fjöldi fólks með háskólapróf, til að mynda í lífefnafræði, verkfræði og markaðsfræði. Á þessu hugviti verðum við að byggja. Skapa umhverfi hérlendis svo að allir, ungir sem aldnir, karlar og konur, sjái framtíð á Íslandi.

Ungt fólk kallar ekki eftir ölmusu heldur tækifærum til þess að nýta hugvit sitt. Þannig þurfum við sjá til þess að hér verði frelsi til athafna, frelsi til að synda á móti straumnum og frelsi til að láta drauma sína rætast. Ákall ungs fólks snýr að því að við förum að þora að gera hlutina öðruvísi. Í svari ráðuneyta við fyrirspurn minni um aldursdreifingu stjórnenda hjá ráðuneytum og stofnunum kom í ljós að við erum síst að nýta krafta ungs fólks. Þessu þurfum við að breyta. Þó höfum við verið að stíga skref í rétta átt og haft hugrekki til að gera þó nokkrar breytingar þar sem ný hugsun er við lýði. Má þar fyrst nefna nýframkomið frumvarp um Lánasjóð íslenskra námsmanna þar sem nemendur eru styrktir fyrir eðlilega námsframvindu. Í annan stað má nefna nýtt greiðsluþátttökukerfi í heilbrigðisþjónustu en með því er verið að tryggja að þeir sem þurfa mest á þjónustunni að halda hafi ekki fjárhagsáhyggjur ofan í alvarleg veikindi. Í þriðja lagi má nefna að fjölbreytt rekstrarform í heilsugæslunni leyfir okkur að nýta fjármuni mun betur. Bestu fréttirnar eru hins vegar þær að við erum hætt að heyra fréttir af skorti á heimilislæknum eftir að áform um þrjár nýjar heilsugæslustöðvar voru kynnt. Með nýju fyrirkomulagi sjáum við endurvakinn áhuga unglækna til það starfa á Íslandi. Þessi dæmi sýna okkur að aukið fjármagn er ekki endilega forsenda árangurs.

Við eigum mörg tækifæri til sams konar kerfisbreytinga annars staðar í ríkisrekstrinum. Þar vil ég helst nefna samgöngurnar. Samgöngumálin eru langt frá því að vera í nógu góðu lagi eftir sinnuleysi síðastliðins áratugar. Við verðum að þora að taka umræðuna um fjölbreyttar leiðir til þess að koma mikilvægum samgönguframkvæmdum af stað. Meiri hluti þjóðarinnar var á móti því að fara nýjar leiðir við byggingu Hvalfjarðarganga. Ég spyr: Hver mundi vilja að stjórnmálin hefðu ekki haft kjark í að fara í þá vegferð á sínum tíma?

Þá er mikilvægt að nýta allar góðar leiðir til að vernda náttúruna. Það er hægt að gera með því að innheimta gjald fyrir virðisaukandi þjónustu eins og bílastæðagjöld. Þá getum við nýtt fjármunina til þess að byggja þá innviði sem vernda náttúruna og tryggja góða upplifun í stað þess að nýta þá fjármuni sem við höfum í að byggja dýr bílastæði.

Góðir landsmenn. Til þess að við Íslendingar komumst áfram þurfum við að taka samtalið um hugsjón í stað þess að ausa skömmum hvert yfir annað. Slík umræða er einnig mikilvæg til að auka áhuga ungs fólks á stjórnmálum en það lítur ekki við umræðu þar sem hver sakar annan með dónaskap um spillingu og verkleysi. Ég kalla því eftir því að við í stjórnmálunum verjum meiri tíma í að ræða hvers konar aðstæður við viljum byggja upp hér á landi og hvers konar tækifæri, því að öflug framtíðarsýn er besta vopnið til þess að tryggja að ungt fólk vilji áfram byggja þetta land. Með bros á vör segi ég því: Frelsi til framtíðar.