145. löggjafarþing — 121. fundur,  30. maí 2016.

almennar stjórnmálaumræður.

[21:41]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Kæru Íslendingar. Ég vil byrja á því að þakka öllum þeim sem var nóg boðið og mættu hér fyrir utan í kjölfar Kastljóssþáttarins margfræga, ekki út af ótta um afkomu, nei, heldur út af því að siðferðiskennd fólks var misboðið. Það er einstakt, ekki aðeins hér heldur á heimsvísu. Sko, loksins almennilegt heimsmet. Það er nefnilega alveg ótrúleg lýðræðisvakning í gangi á Íslandi núna.

Baráttan um nýja Ísland hófst fyrir alvöru síðla hausts árið 2008 þegar almenningur upplifði að allt sem átti að vera hægt að treysta hafði brugðist. Við upplifðum algert hrun, ekki einungis efnahagslegt hrun heldur algert hrun á trausti gagnvart valdhöfum. Mikil vitundarvakning átti sér stað og þetta var ekki aðeins vitunarvakning einstaklinga, heldur samfélagsins sem heildar.

Það kom nefnilega í ljós að gullkálfurinn reyndist ekki einu sinni búinn til úr glópagulli heldur úr kvikasilfri. Kaleikur sannleikans er oft bitur og það getur reynst erfitt að kyngja því að hafa verið afvegaleiddur. En í hringiðu neyðarástands skapast skilyrði hugrekkis og dáða sem voru sá drifkraftur sem færði fólk nær nýja Íslandi en nokkru sinni fyrr í kjölfar hrunsins, hið nýja Ísland sem forfeður okkar dreymdi um þegar bráðabirgðastjórnarskráin var sett fyrir meira en 70 árum. En það hefur alla tíð verið hindrað í að verða að veruleika vegna samofinna valdablokka hagsmunaaðila, þeirra sem áður en við öðluðumst sjálfstæði voru húsbændur Íslendinga og hjú hins danska konungs. Kolkrabbi og helmingaskiptaklíkur hafa verið harður húsbóndi og þeir hafa komið fram við þjóðina sína sem þegna en ekki sjálfstæða borgara í samfélagi jafningja. En Íslendingar, sá tími er brátt að hverfa.

Það var sem allt í einu í árdaga hrunsins að álögum ánauðar hefði skyndilega verið létt af fólki og upp spruttu, eins og iðandi gróður bregst við þegar skraufþurr eyðimörkin fær yfir sig hellidembu, ótrúlega fjölbreytt grasrótarsamtök og fjölskrúðugar umræður um hvernig við gætum rifið upp arfa fortíðar og komið í veg fyrir annað eins í framtíðinni. Upp úr því öllu spratt hugmyndin um þjóðfundina, um nýjan samfélagssáttmála og stjórnlagaþing með ríkri aðkomu allra sem vildu vera með. Úr varð stjórnarskrá sem einkenndi þessa tíma þar sem þeirri vitund um aukna þátttöku almennings í lýðræðinu var gert hátt undir höfði og ýmis verkfæri til að ná upp með rótum kæfandi spillingararfinum voru steypt inn í okkar æðstu lög. Það kom því ekki á óvart sú óvild sem hinn nýi sáttmáli og þeir sem að honum stóðu fengu að finna fyrir með áróðri og linnulausum tilraunum til að láta gamalkunnan ótta um óvissu hreiðra um sig í hjörtum landsmanna frá þeim sem alltaf hefur tekist að halda völdum sama hve illa holað samfélagið hefur orðið eftir að loforðin reyndust innantóm og markviss einkavæðing alls sífellt þéttriðnari um allt, meira að segja heilbrigðiskerfið.

Nú hefur það verið svo að í meira en ár hefur almenningur sýnt andstöðu við hið gamla Ísland í hverri skoðanakönnuninni á fætur annarri þar sem kemur fram að fólk vill von en ekki ótta og hefur það endurspeglast í miklu vantrausti á núverandi valdhafa sem í raun eru birtingarmynd helmingaskiptanna og hugarfars okkar gömlu lénsherra.

Kosningabaráttan hérlendis, bæði fyrir forsetaembættið og Alþingi, verður og er baráttan á milli gamla siðspillta Íslands, þar sem óvissan elur af sér óreiðumenn sem vilja stöðva alla framþróun hérlendis og halda sér fast í fúnar undirstöður sem þeir sjálfir hafa látið visna upp og rotna, gegn nýja Íslandi, þar sem möguleiki er á að rífa siðspillingu og löglegt en siðlaust hugarfarið upp með rótum. Já, forseti, ný stjórnarskrá býður upp á traust til að skrifa inn óminn frá visku fjöldans inn í lagaþræði og stefnumótun á Alþingi.

Stóra spurningin er hvort fólk óttist eða fagni þeirri auknu ábyrgð sem fylgir því að hafa fleiri tækifæri til að skapa hér stöðugleika, velsæld og almenna hamingju með auknu jafnræði og skiptingu á sameiginlegum auðlindum okkar. Það er í raun mjög auðvelt að tryggja það að fjármunum verði dreift á sanngjarnan máta, þannig að enginn þurfi að fresta því að fara til læknis vegna bágra kjara. Það er satt best að segja ekkert mál. Almenningur vill forgangsraða úr sameiginlegum sjóðum í heilbrigðisþjónustu. Það er ekkert mál að hafa heilbrigðisþjónustu sem er gjaldfrjáls. Nóg er nú tekið af fólki í skatt.

Eins og er er ný stjórnarskrá besta verkfærið sem við höfum til að yfirfæra meiri völd, fjármuni og hagsæld til handa öllum en ekki bara útvöldum eins og það er í dag.

Forseti og kæra þjóð. Segja má að við séum óendanlega lánsöm, bæði heima og að heiman. Við lifum nefnilega á tímum þar sem allt sem við þekkjum er að umbyltast og breytast og öll þau kerfi sem við þekkjum eru í raun að brotna undan þunga tímans. Það minnir mig um margt á sambærileg átök og móðir fer í gegnum þegar hún fæðir barn. Gríðarleg átök enda með einhverju sem margir upplifa sem þá stund lífsins sem öllu breytti, nánast eins og kraftaverk þegar augu foreldris mæta augu barns í fyrsta sinn. En ég þekki enga móður sem vill lengja þann tíma sem hríðarnar standa yfir. Því er nánast grimmilegt að reyna að halda aftur af þeirri nauðsynlegu fæðingu sem þarf að eiga sér stað. Það er ekkert að óttast, lífið er stöðugum breytingum háð. Við ættum að þekkja það manna best hérlendis, ekki einu sinni lengd dagsins er hin sama frá degi til dags.

Enga þjóð þekki ég sem getur komið eins miklu í verk á svo skömmum tíma og við getum. Enga þjóð þekki ég sem er eins fljót að skipta um skoðun og opna hug sinn ef tíðarandinn segir svo um. Við erum hviklynd og kannski út af því er þráin eftir tálsýn stöðugleikans svo rík í okkur. En það er ekki til neitt öryggi nema innra með okkur því að allt — allt— er breytingum háð.

Það er vert að hafa í huga að tilboð ríkisstjórnarinnar um að boða til kosninga í haust er til komið vegna kröfu ykkar, kröfu almennings, fólksins í landinu en ekki vegna hagsmuna einhverra stjórnmálaflokka. Þið, landsmenn góðir, hafið nú einstakt tækifæri á næstu mánuðum til að huga vel að sögunni, hvernig flokkarnir hafa staðið við gefin loforð eftir kosningarnar 2013. Þið hafið góðan tíma til að hitta alla þá sem nú undirbúa atvinnuviðtalið við ykkur en fyrst fremst þá getið þið nýtt ykkur þau verkfæri sem hafa nú þegar verið sköpuð til að fá fram skoðun ykkar á því hvað er brýnast að gera.

Það á nefnilega ekki að vera þannig að þið séuð valdlaus á milli kosninga, nei, það á einmitt að vera þannig til að skapa traust á milli þings og þjóðar að hægt sé að veita raunverulegt aðhald á milli kjörtímabila. Það er hægt með því að nota t.d. Betra Ísland, rafrænt aðsetur hugmynda ykkar um hvað þingið á að taka sér fyrir hendur. Ef aðeins 2% landsmanna eru sammála um eitthvert tiltekið málefni sem þar er lagt fram lofuðu Píratar því fyrir síðustu kosningar að setja það málefni ykkar á dagskrá þingsins.

Í öllu þessu umróti hef ég velt mikið fyrir mér hvernig Alþingi virkar. Það er besti mögulegi vettvangurinn til að miðla vilja þjóðar áfram í þverpólitískri samvinnu. Hugmyndafræðin um meiri og minni hluta, stjórn og stjórnarandstöðu, þar sem einatt er áhugi á átökum en ekki samvinnu, er fáránlegt fyrirbæri sem þarf að laga. Auðvitað er það þannig að fólk með ólíka hugmyndafræði getur tekist vel á en það er samt þannig að í grunninn erum við sammála um svo merkilega margt. Það er afar brýnt að við einhendum okkur í að efla þingið, valdsvið þess og ábyrgð því að þingið er næst almenningi á meðan framkvæmdarvaldið, sem öllu ræður, er fjærst fólkinu. Í stað þess að spá stöðugt í hver væri besti ráðherrann ættum við að spá í hver væri besti nefndarformaðurinn og hver ætlar að leiða vinnuna í að finna samfélagssáttmála um það hvert við ætlum að stefna sameiginlega sem þjóð inn í framtíðina. Ég veit nákvæmlega hver er bestur til að leiða þá vinnu, það er nefnilega þú, það eruð þið, og það erum við öll sameiginlega.

Það eru spennandi tímar fram undan þar sem öllum er boðið upp á dekk, þar sem við lærum að rökræða saman. Ég hef fulla trú á því að það takist. Gamla Ísland var okkur gott og gagnlegt á marga vegu en gamla Ísland er líka táknmynd frændhygli, sérhagsmunagæslu, arðráns og spillingar. Ég veit ekki með ykkur en ég ætla að velja að ganga veg vonar í stað óttans. Höldum inn í framtíðina, leyfum fortíðinni að vera þar sem hún á að vera, í minningunni. Það er tímabært að sleppa tökunum og leyfa barninu nýja Íslandi að fæðast. Það er ekkert að óttast. Laufin á trjánum er ekki hættuleg þó að þau umbreyti trénu á vordögum í laufskrúð, tré sem áður voru sem dauð að vetri. Það er ekkert að óttast. — Bless, bless.