145. löggjafarþing — 122. fundur,  31. maí 2016.

tryggingagjald og samsköttun milli skattþrepa.

[13:36]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Nú liggur fyrir álit meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar í þingmáli um skattamál þar sem lagt var til af hálfu fjármálaráðherra fyrir hönd ríkisstjórnarinnar að falla frá heimildum til tilfærslu í samsköttun hjóna, sem kostar 3,6 milljarða og nýtist fyrst og fremst tekjuhæsta fólkinu í landinu. Meiri hluti nefndarinnar ákvað að styðja ekki þessa breytingu hæstv. fjármálaráðherra. Þá blasir við að lofuð lækkun ríkisstjórnarmeirihlutans á tryggingagjaldi er ófjármögnuð.

Ég vil spyrja hæstv. forsætisráðherra hvort hann standi í alvöru að baki svona öfugsnúinni skattaaðgerð. Er það í alvöru verjandi fyrir Framsóknarflokkinn, sem gefur sig alla vega á tyllidögum út fyrir að vera félagslegur flokkur, að standa að ákvörðun eins og þessari þegar við blasa verkefni sem ekki er hægt að fjármagna? Hér stendur fyrir dyrum að koma á greiðsluþátttökukerfi í heilbrigðisþjónustu og höfuðvandamálið þar er að það vantar meiri peninga inn í það kerfi. Þessir 3,6 milljarðar væru afskaplega vel þegnir inn í það kerfi, og mundu gera það mjög auðvelt t.d. fyrir okkur í Samfylkingunni að styðja þá breytingu.

Það liggur líka fyrir með athugasemdum forseta Alþýðusambandsins nú fyrir stuttu þar sem hann minnir á samhengi hlutanna, að ríkisstjórnin lofaði 2,5 milljörðum í byggingu 600 íbúða en hefur bara staðið við að leggja fram 2/3 hluta þess fjármagns, 1,5 milljarða. Þar af leiðandi væri hægt að nota milljarð í það verkefni. Þannig mætti lengi telja.

Hvernig getur ríkisstjórnin fallist á að svona sé gengið fram af hálfu stjórnarmeirihlutans? Ég bið hæstv. forsætisráðherra þess lengstra orða að koma nú með skörulega yfirlýsingu þess efnis að hann standi ekki með stjórnarmeirihlutanum í efnahags- og viðskiptanefnd að þessari (Forseti hringir.) arfavitlausu tillögu.