145. löggjafarþing — 122. fundur,  31. maí 2016.

skýrsla um mansal.

[13:48]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ef ég mætti kannski koma eilítið inn á fyrri hluta fyrirspurnarinnar, varðandi mansalið almennt. Eins og ég nefndi höfum við verið að vinna samkvæmt áætlun ríkisstjórnarinnar um aðgerðir gegn mansali sem var samþykkt fyrir árin 2013–2016. Það hefur ekki verið samþykkt ný áætlun í framhaldi af þessu. Það voru þrjár aðgerðir þar sem velferðarráðuneytið var skráður ábyrgðaraðili, en heildarumsjón með málaflokknum fellur hins vegar undir innanríkisráðuneytið. Við erum að huga að líkamlegri, félagslegri og sálrænni aðstoð óháð lögheimilisskráningu, aðgerðum til að tryggja öruggt húsnæði fyrir öll fórnarlömb mansals og hvernig við getum þróað úrræði til að bæta félagslega færni og andlega líðan. Til viðbótar við þetta er það sem ég nefndi, aukið samstarf sem við höfum átt við verkalýðsfélögin almennt til að tryggja að ekki sé um félagsleg undirboð að ræða og ekki sé verið að brjóta á mannréttindum fólks á vinnumarkaðnum.

Varðandi fyrirspurnina sem snýr að (Forseti hringir.) þátttöku okkar á íþróttamóti þá hafa oft verið mjög skiptar skoðanir um þátttöku okkar (Forseti hringir.) og má benda á Ólympíuleikana í Rússlandi. Ég hef sjálf hins vegar ekki í hyggju að mæta á þetta mót.