145. löggjafarþing — 122. fundur,  31. maí 2016.

uppfylling stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar.

[13:50]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Ég var að renna yfir stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnar Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins frá 2013 og hef nokkrar spurningar til hæstv. forsætisráðherra í tengslum við það.

Í yfirlýsingunni stendur, með leyfi forseta:

„Ríkisstjórnin mun leitast við að virkja samtakamátt þjóðarinnar og vinna gegn því sundurlyndi og tortryggni sem einkennt hefur íslensk stjórnmál og umræðu í samfélaginu um nokkurt skeið.“

Mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra: Hvar hefur tekist best til í umleitan ríkisstjórnarinnar í virkjun samtakamáttar þjóðarinnar? Er það kannski samtakamátturinn sem almenningur sýndi með því að mæta í fjölmennustu mótmæli á Íslandi gegn ríkisstjórninni? Eða er það eitthvað annað sem hæstv. forsætisráðherra finnst hafa tekist betur til með?

Nú ætla ég að grípa aftur niður í stefnuyfirlýsinguna:

„Með aðgerðum sínum hyggst ríkisstjórnin einnig eyða þeirri pólitísku óvissu sem hefur verið of áberandi þáttur í íslensku þjóðlífi á undanförnum árum. Unnið verður að víðtækri sátt við aðila vinnumarkaðarins um þróun vinnumarkaðar og uppbyggingu til framtíðar.“

Mig langar að spyrja hæstv. forsætisráðherra hvar honum finnist ríkisstjórninni hafa tekist best til við að auka trúverðugleika og traust á erlendum vettvangi. Hvernig hefur tekist að eyða pólitískri óvissu? Hver var sú óvissa nákvæmlega sem ríkisstjórnin stefndi að að eyða á vordögum 2013?

Aftur ætla ég að grípa niður í sáttmálann, með leyfi forseta:

„Samfélag er samvinnuverkefni þar sem öll störf skipta máli og haldast í hendur. Mikilvægt er að hlúð sé að þeim sem þurfa á aðstoð að halda og jafnframt að fólk fái notið árangurs erfiðis síns og hugkvæmni. Aldraðir skulu njóta öryggis og velferðar og öllum skal tryggð hlutdeild í þeirri verðmætasköpun sem Ísland og íslenska þjóðin getur af sér.“

Hvar finnst hæstv. forsætisráðherra hafa tekist best til við að tryggja öryggi og velferð hjá öldruðum?