145. löggjafarþing — 122. fundur,  31. maí 2016.

ákvörðun kjördags.

[13:56]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég hef áður vakið athygli á því úr þessum ræðustóli hversu brýnt það sé að ákveða kjördag og þó fyrr hefði verið vegna fyrirhugaðra alþingiskosninga í haust.

Þetta helgast í fyrsta lagi af því að nauðsynlegt er að gera breytingar á lögum um kosningar til Alþingis þegar óreglulegan kjördag ber að á hausti og fyrir 1. desember eins og nú stefnir í til að afstýra því að Íslendingar búsettir erlendis missi í stórum stíl kosningarrétt eða möguleikann á að sækja um að endurnýja veru sína á kjörskrá. Nauðsynlegar lagabreytingar, sem forsætisnefnd Alþingis hefur reyndar haft í undirbúningi, er erfitt að klára nema kjördagur hafi verið festur.

Í öðru lagi er brýnt að ákveða kjördag því að utankjörfundaratkvæðagreiðsla á að hefjast átta vikum fyrir kosningar. Það er upp úr miðjum ágúst ef kosið yrði um miðjan október.

Í þriðja lagi eru stjórnmálamenn, tilvonandi frambjóðendur og flokkar að hefja sinn undirbúning undir kosningar þessa dagana, nema þá Framsóknarflokkurinn, og það er fráleitt að halda mönnum í óvissu um það lengur nákvæmlega hvenær verður kosið.

Framsóknarmenn virðast vera einir um að reyna að tala sig í burtu frá loforði sínu eða ríkisstjórnarinnar um kosningar í haust. En það verður náttúrlega ekki þannig að Framsókn sitji ein á þingi og í ríkisstjórn næsta vetur í andstöðu við meirihlutavilja Alþingis og annarra flokka.

Loforð um kosningar í haust var ekki gefið stjórnarandstöðunni og það var ekki gefið stjórnmálafræðingum og álitsgjöfum sem bíða auðvitað með eftirvæntingu eftir sinni veislu. Loforðið var gefið íslensku þjóðinni um að hún fengi málin í sínar hendur í haust.

Með þessum rökstuðningi spyr ég hæstv. forsætisráðherra: Hyggst ríkisstjórnin og meiri hluti hennar standa við loforð sitt til þjóðarinnar um kosningar í haust eða ekki? Skýrt svar óskast.

Í öðru lagi: Eigi ekki að svíkja loforðið, hyggst þá ekki hæstv. forsætisráðherra ganga (Forseti hringir.) frá samkomulagi við forustumenn annarra flokka um kjördag áður en Alþingi lýkur störfum í vor?