145. löggjafarþing — 122. fundur,  31. maí 2016.

ákvörðun kjördags.

[14:01]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Aðeins tosast þetta í rétta átt en er samt loðið og fljótandi enn þá. Styttist í o.s.frv. Það er eins og hæstv. forsætisráðherra átti sig ekki almennilega á alvöru málsins. Það er ekki, af mörgum ástæðum, boðlegt að vera að fresta því að festa kjördaginn. Það eru fordæmi fyrir því að gera það fyrst með pólitískt völduðu samkomulagi allra flokka. Síðan kemur hinn lögformlegi og stjórnskipulegi prósess í framhaldinu.

Ég skil ekki hæstv. forsætisráðherra og framsóknarmenn að þeir skuli ekki sjá í hversu ámátlegt ljós þeir setja sjálfa sig með þessu þófi. Þeir eru eins og rjúpnahópur sem vill fresta jólunum til þess að fá að lifa í nokkrar vikur í viðbót. Þetta er alveg dæmalaust.

Ég er hérna með dagatal, hæstv. forsætisráðherra, og ég get afhent þér það og kennt þér á það á eftir ef með þarf. Það er ekki flókið málið. Laugardagarnir í október eru 1., 8., 15., 22. og 29. Ef við erum að tala um október þá er þetta þarna.

Ef við erum að tala um miðjan mánuðinn, sem væri æskilegt þannig að þetta fari ekki alveg inn í veturinn, þá hefst utankjörfundaratkvæðagreiðslan (Forseti hringir.) um 20. ágúst. Þá verður að vera búið að festa kjördaginn löngu áður en Alþingi kemur saman að nýju. Þannig að við eigum að gera þetta núna, hæstv. forsætisráðherra, og ekki degi seinna.