145. löggjafarþing — 122. fundur,  31. maí 2016.

Félagsmálaskóli alþýðu.

[14:08]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður óskar eftir að ég sé skýrari. Ég hef verið ráðherra í þrjú ár. Ég hef ekki lagt til að gera breytingar á Félagsmálaskóla alþýðu á þeim tíma. Ég hef ekki lagt fram frumvarp um að fella þau lög úr gildi. Við undirbúning fjárlagagerðar gerum við ráð fyrir að þessir fjármunir fari áfram þangað. Ég er hins vegar með eitt atkvæði af 63. Ég ítreka að við höfum lagt mjög mikla áherslu á að bæta samtalið við aðila vinnumarkaðarins. Það leiddi til þess að við gátum gert kjarasamninga til fjögurra ára í vor sem er undirstaða fyrir annan stöðugleika í efnahagslífinu. Þar var m.a. samið um að setja aukna fjármuni á vegum menntamálaráðherra í starfsmenntun. Ég ítreka það sem ég sagði að ég tel að breytingar sem við gerum hvað þetta varðar þurfi að vera í samráði við aðila vinnumarkaðarins.