145. löggjafarþing — 122. fundur,  31. maí 2016.

aðgerðir stjórnvalda gegn skattsvikum o.fl.

787. mál
[14:45]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Varðandi þörfina fyrir lagabreytingar er mér ekki kunnugt fyrir fram um að það séu einhverjir veggir, einhverjir múrar, sem menn muni lenda á þegar þeir reyna að nálgast umfang skattsvika sem tengjast aflandsfélögum í fortíð og í nútíð. Við munum einfaldlega setja vinnuna af stað. Ég geri það vegna þess að mér finnst skipta svo miklu máli þegar við ræðum þessi mál í heildarsamhengi að við höfum eins góðar upplýsingar og mögulegt er. Ef breyta þarf einhverjum lögum eða reglum munum við taka það til skoðunar, svo sannarlega.

Það er staðreynd að mjög háum fjárhæðum hefur verið fleygt inn í umræðuna, allt frá mörg hundruð milljörðum yfir í tugi milljarða á ári. Í sumum tilfellum finnst mér gefið í skyn að við verðum enn þá fram á þennan dag af tugum milljarða á ári vegna skattsvika. (Forseti hringir.) Ég ætla ekki að fullyrða neitt um að það sé rétt. (Forseti hringir.) Ég held að þessar tölur hafi oft og tíðum verið dálítið bólgnar í umræðunni en vil (Forseti hringir.) gjarnan leggja það til umræðunnar sem hægt er.