145. löggjafarþing — 122. fundur,  31. maí 2016.

aðgerðir stjórnvalda gegn skattsvikum o.fl.

787. mál
[14:49]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P) (andsvar):

Forseti. Ég þakka svörin sem voru bara nokkuð skýr. Mig langar samt að spyrja: Af hverju hefur ekki verið gengið fyrr í þessar lagabreytingar? Það hefur verið vitað af þessum holum sem hafa verið misnotaðar. Af hverju hefur ekki verið gengið fyrr í þessar lagabreytingar?

Síðan langaði mig að spyrja hvort hæstv. ráðherra styðji lög um breytingar þannig að hægt sé að koma í veg fyrir svona þunna eiginfjármögnun.

Að lokum vil ég hrósa hæstv. ráðherra af því að maður gerir of lítið af því í þessum sal að hrósa fólki fyrir góð viðhorf.

Ég held að það sé mjög gott að við gefum okkur tíma í efnahags- og viðskiptanefnd til að fara mjög ítarlega yfir frumvarpið því að hér er allt of algengt að lagasetningu sé þrýst í gegnum þingið á of miklum hraða og svo er reynt að bregðast við því með bútasaumi sem er mjög vond stjórnsýsla. Þannig að ég er ánægð að heyra að það eigi ekki að reyna að þrýsta þessu í gegn á nokkrum dögum.