145. löggjafarþing — 122. fundur,  31. maí 2016.

aðgerðir stjórnvalda gegn skattsvikum o.fl.

787. mál
[14:53]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil vekja athygli hv. þingmanns á því að ég hef í minni ráðherratíð ekki bara beitt mér fyrir því að við ættum samstarf um að þrengja að lágskattaríkjum og sérstaklega leyndinni sem þau hafa viljað viðhalda heldur hef ég í skattframkvæmdinni, þrátt fyrir allt sem sagt hefur verið í þinginu, gert slíkar breytingar á álagningu skatta að það hefur skilað meiri tekjum til ríkisins en ella hefði orðið. Það gerðum við með því að færa skattbyrðina til, frá fólki yfir á fjármálafyrirtæki, slitabú.

Þetta er grundvallarspurning sem borin er hér upp. Hvort er líklegra til árangurs í þessum efnum að banna fólki að eiga viðskipti við lágskattaríki eða fara þá leið að þrengja að þeim og krefjast upplýsingaskipta? Þeirri spurningu hefur verið svarað á alþjóðavettvangi. Við höfum farið með þeirri bylgju sem OECD hefur leitt og öll helstu samstarfsríki okkar. (Forseti hringir.) Ég er þeirrar skoðunar að sú aðferð mundi skila meiri árangri en að banna í lögum vegna þess að það er út af fyrir sig engin trygging fyrir því að brotið verði ekki framið.