145. löggjafarþing — 122. fundur,  31. maí 2016.

aðgerðir stjórnvalda gegn skattsvikum o.fl.

787. mál
[14:56]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við erum alveg sammála um að við verðum einfaldlega að gera það sem við getum til þess að nálgast sannleikann um það hversu umfangsmikil skattsvikin hafa verið. Það er algjört grundvallaratriði. Þess vegna hef ég komið á fót sérstökum starfshópi til þess að nálgast sannleikann um það. En hvers vegna grunar mig að umfangið sé minna í dag en áður? Við skulum ekki blanda saman ólíkum hlutum. Eitt er það að við höfum bara séð hluta myndarinnar. Það held ég að sé alveg rétt hjá hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni sem vísað var til og við vitum það alveg að við höfum fengið upplýsingar úr einni átt. Við höfum ekki fengið upplýsingar um allt sem var á seyði, en þær upplýsingar gefa vissa vísbendingu. Ein vísbending birtist okkur í því að félögum hefur í stórum stíl verið lokað. Slitastjórnir gömlu bankanna hafa mikið verið að loka slíkum félögum, við vitum það. Við vitum það líka frá skattyfirvöldum að þau meta það sem svo að mjög hafi dregið úr þessu. Við vitum líka að á Íslandi voru það bankarnir með erlend útibú sín sem voru frumkvöðlarnir í þessu, voru (Forseti hringir.) ísbrjótarnir og meginráðgjafarnir og áttu allt helsta frumkvæði. (Forseti hringir.) Þetta eru vísbendingarnar sem ég byggi mál mitt á.