145. löggjafarþing — 122. fundur,  31. maí 2016.

aðgerðir stjórnvalda gegn skattsvikum o.fl.

787. mál
[14:59]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef ekki á reiðum höndum svar við þeirri spurningu hvort við höfum fordæmi fyrir þessu ákvæði annars staðar frá. Hér er reynt að nálgast viðfangsefnið án þess að ganga svo langt að banna ráðgjöf. Því hefur verið hent inn í umræðuna að við ættum jafnvel að gera ráðgjöf um þessi atriði refsiverða. Það hugnast mér ekki heldur er lögð á sú kvöð að upplýsa skattyfirvöld um þetta. Réttlætingin getur í sjálfu sér eingöngu verið sú að það liggur fyrir að þeir sem njóta þjónustu lágskattaríkja geta undir vissum kringumstæðum komist þar í skjól og verið í skjóli leyndar. Það er í raun og veru réttlætingin. Hana verður að vega á móti öðrum réttindum fólks til þess að geta yfir höfuð leitað sér ráðgjafar, (Forseti hringir.) réttinum til þess að veita ráðgjöf og trúnaðarskyldu. Síðan má svo sem alveg vega þetta í aðeins stærra samhengi hlutanna.