145. löggjafarþing — 122. fundur,  31. maí 2016.

aðgerðir stjórnvalda gegn skattsvikum o.fl.

787. mál
[15:27]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Áður en ég fer að vitna í einhverja erlenda fræðimenn skal ég líka hafa í huga að vitna reglulega í ræður hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar og hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar, (ÖS: Heyr, heyr.) enda er ávallt til bóta í þessum þingsal að rifja þær upp með reglulegu millibili. En það er alveg rétt sem hv. þingmaður segir. Ég var ekki hér fyrir fimmtán árum. En umræðan hefur þróast mjög hratt. Ástæða þess að ég leyfi mér að nefna fræðingana er að umræðan hefur líka þróast mjög hratt innan fræðanna. Sú þróun hefur kannski fyrst og fremst komið frá Evrópu, evrópska háskólasamfélaginu, sem er í raun að gerbreytast á þessu fræðasviði. Mér finnst það áhugavert. Mér finnst það sýna að sjálf misskiptingin er orðin rannsóknarefni hagfræðinganna. Þá hljótum við að velta því fyrir okkur hvaða markmiðum fjármálakerfið þjónar sem við höfum byggt upp. Er það til að auka misskiptinguna eða ekki? Tvímælalaust er það svo að þegar við gefum fólki val um eigin skattprósentu, þ.e. þeim sem hafa til þess efni, erum við væntanlega um leið að ýta undir misskiptinguna. Það er markmið sem við hljótum að vilja vinna gegn ef við tökum undir tekjujöfnunarhlutverkið. Og þar með hljótum við að vilja gera skattkerfið gagnsærra.

Hvað varðar síðan aflandsfélögin sjálf eru þau líka í raun orðin meiri meginstraumsumræða, óháð þeirri umræðu sem hér var fyrir fimmtán árum. Því eigum við að fagna. Við sjáum ríkisstjórnir, hvort sem er til hægri eða vinstri, taka þennan kyndil upp og við sjáum gerbreytta umræðu frá öllu litrófi stjórnmálanna.

Ég ætla að leyfa mér að fagna þessu frumvarpi. En ég vil sjá gengið lengra. Ég vil að efnahags- og viðskiptanefnd fari yfir frumvarpið með það að markmiði að ganga lengra í aðgerðum til að tryggja gagnsæi og til að tryggja eðlilega skattheimtu. Ég tek líka fram að það er mikilvægt út frá spurningum hv. þingmanns að við fáum fleiri gögn. Ég vonast líka til þess að sú úttekt sem (Forseti hringir.) hæstv. ráðherra boðaði liggi hér fyrir helst snemma í ágúst svo hægt verði að nýta hana til frekari úrvinnslu á þessu máli.