145. löggjafarþing — 122. fundur,  31. maí 2016.

aðgerðir stjórnvalda gegn skattsvikum o.fl.

787. mál
[15:58]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður orðaði það svo að orðið hefði byltingarkennd viðhorfsbreyting gagnvart úrlausn og umbúnaði skattamála af þessum toga með Panama-skjölunum.

Það er hárrétt hjá honum. En við vitum líka að byltingarástand varir yfirleitt stutt. Núna er ákveðinn gluggi til þess að nýta samstöðuna til þess að breyta málunum.

Þegar hv. þingmaður var eðlilega að verja og stæra sig af gjörðum ríkisstjórnarinnar í þessum málum, sem ég tel ekkert óeðlilegt, var það eitt sem var rauður þráður í gegnum margt sem átti að gera. Jú, það átti að setja upp starfshópa til þess að skoða málið.

En hv. þingmaður veit það úr sínu fyrra lífi að þegar menn standa í dauðafæri fyrir opnu marki setja þeir ekki upp starfshóp til þess að velta fyrir sér hvernig skora eigi markið. Þeir bara vaða í það.

Það vill svo til, eins og fram kom í máli hv. þingmanns, að efnahags- og viðskiptanefnd hefur farið mjög vel yfir málið. Við vitum úr vinnu hennar hvað vantar upp á frumvarpið. Hvers vegna er þá ekki hægt að vaða í það að samþykkja frumvarpið sem fyrst með þeim breytingum sem nefndin getur unnið upp úr þeirri vinnu sem þegar liggur fyrir?

Þetta er í fyrsta lagi viðhorf og athugasemd hjá mér gagnvart hv. þingmanni.

Hv. þingmaður telur að þarna sé verið að gera marga góða hluti og hann er einlæglega þeirrar skoðunar að reyna eigi að uppræta þá iðju sem felst í því að nota skattumdæmið þar sem ríki eins og Ísland getur ekki fengið upplýsingar frá um eignarhald og rekstur.

Þá spyr ég hv. þingmann: Af hverju stígum við ekki skrefið til fulls, hlustum á það sem ESA var beinlínis að beina okkur að og bönnum Íslendingum að eiga reikninga á svæðum þar sem íslensk skattyfirvöld geta ekki sannreynt (Forseti hringir.) upplýsingarnar frá?