145. löggjafarþing — 122. fundur,  31. maí 2016.

aðgerðir stjórnvalda gegn skattsvikum o.fl.

787. mál
[16:03]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni seinna andsvarið. Eftir að hafa lært hér á þingtæknilegar ræður hefði ég sagt að ekki væri hreinlega komið að því að svara þessu. En ég vissi að ég mundi eiga seinna andsvar við hv. þingmann og hann mundi ekki leyfa mér að komast upp með að svara ekki spurningunni, þ.e. þeirri kjarnaspurningu sem kom í endann á fyrra andsvari.

Ég held að hv. nefnd muni setja fram þá ályktun: Er hægt að ganga svo langt að banna alfarið að stofna svona félög? Að það sé hreinlega gert á þeim forsendum að þau ríki sem ekki undirgangast samninga um að skila upplýsingum — hvort ekki sé hreinlega hægt út frá þeim skilgreiningum að banna stofnun aflandsfélaga í slíkum ríkjum.

En ég held að það verði alltaf háð einhverjum skilgreiningum og gert í alþjóðlegri samvinnu ef við ætlum að láta á það reyna að banna alfarið að stofna slík félög.

Já, ég er mjög jákvæður fyrir því að ganga svo langt ef hægt er að skilgreina það vel og alþjóðleg samstaða er um slíkar aðgerðir.