145. löggjafarþing — 122. fundur,  31. maí 2016.

aðgerðir stjórnvalda gegn skattsvikum o.fl.

787. mál
[16:10]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ærleg svör. Ég mun nýta mér þann stuðning sem hann upplýsti um til að taka málið upp á vettvangi hv. efnahags- og viðskiptanefndar og nefndin gæti þá óskað eftir viðbrögðum ráðuneytisins við því endurskoðaða frumvarpi sem liggur frammi. Ég bíð líka spennt eftir að heyra hvað hæstv. ráðherra mun segja um það í lokaræðu sinni um þetta mál.

Hvað varðar rannsóknarnefndina vil ég ítreka að ég teldi það mjög æskilegt að þingið kæmi sér saman um hvernig ætti að standa að þeim málum. Í ljósi þess hvernig þetta mál allt saman hefur skekið íslenskt samfélag, en hv. þingmenn hafa rifjað upp þessi fjölmennu mótmæli og þær afhjúpanir sem urðu áþreifanlegar fyrir íslenskum almenningi með þeim hætti sem við sáum á vormánuðum, hefði ég talið mjög ákjósanlegt að hér myndaðist ákveðin þverpólitísk samstaða um það hvernig við ætluðum að standa að slíkri rannsókn og horfa til framtíðar. Þess vegna þykir mér miður ef framkvæmdarvaldið ætlar að reyna að taka það mál til sín því að þá náum við ekki að byggja upp það traust sem við þurfum að gera til að geta tekið á þessum málum til lengri tíma.

Þannig að ég ítreka þau sjónarmið að Alþingi þurfi að huga að því hvernig það ætlar að byggja upp traust sitt í samfélaginu, en það ætti að vera áhyggjuefni fyrir okkur öll sem hér störfum, og hvernig Alþingi sem slíkt ætlar að taka á þessu máli. Einn liður í því gæti einmitt verið að reyna að skapa einhverja sátt um það hvernig við tökum á svona stórum málum sem koma upp og eru erfið eins og hér hefur verið nefnt, en ætti samt að vera flötur á út frá því hvernig menn hafa talað í þingsal að finna einhverja sátt um hvernig við ætlum að takast á við. Ég hefði talið það gott skref fyrir Alþingi, herra forseti.