145. löggjafarþing — 122. fundur,  31. maí 2016.

aðgerðir stjórnvalda gegn skattsvikum o.fl.

787. mál
[16:48]
Horfa

Frosti Sigurjónsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég held að við séum mjög sammála, ég og hv. þingmaður, um mikilvægi þess að koma í veg fyrir misnotkun skattaskjóla og lágskattasvæða og þeirrar leyndar sem þar býðst. Það er ansi margt sem við getum gert í því. Eins og hv. þingmaður man eftir skilaði efnahags- og viðskiptanefnd nýlega skýrslu þar sem voru 19 ábendingar sem nefndinni bárust og hún vildi taka saman og leggja fram. Einnig bárust nefndinni mjög áhugaverð minnisblöð og umsagnir sem ég held að hægt sé að fletta upp á vef Alþingis. Í dag ræðum við frumvarp hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra og ég vildi ekki lengja umræðuna með því að fara yfir skýrsluna sem kom frá nefndinni af því tilefni, en vissulega eru mörg atriði þar sem ríma við það sem kemur fram í frumvarpi ráðherrans og við ræðum í dag og það er gott. Nefndin mun að sjálfsögðu skoða þetta og fá kynningu á málinu núna fyrir sumarið og vanda alla umfjöllun um það og kanna hvort hægt sé að ganga lengra eða útfæra þetta með einhverjum hætti og allar ábendingar sem ég hef heyrt í dag skipta máli í því.

Eitt af því sem kemur fram og nefndin ályktaði að væri mikilvægt eru ákvæði um þunna eiginfjármögnun og ráðherra hefur boðað að slík vinna sé í gangi. Það kom líka fram að hugsanlega þyrfti að endurskoða tvísköttunarsamninga, eins og við Lúxemborg, Sviss, Holland, Belgíu og fleiri ríki, til að styrkja ákvæði um upplýsingaskipti í þessum samningum, og margt af sama toga. Það hefur einnig verið boðað að miklu meira sé á leiðinni. Vinnuhópur er að störfum. Ég treysti því að áfram berist frumvörp sem munu duga.