145. löggjafarþing — 122. fundur,  31. maí 2016.

aðgerðir stjórnvalda gegn skattsvikum o.fl.

787. mál
[16:51]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég óttast að hv. þingmanni berist sem formanni nefndarinnar svo mikið af upplýsingum að hann drukkni í þeim. Er ekki einfaldast að fá einhvern með þekkingu í nefndinni, eins og t.d. hv. þm. Steingrím J. Sigfússon, til að vinna þetta og koma með frumvarp, hann þekkir þetta. Notum þann glugga. Ég þekki það að svona gluggi, sem stendur í þessu tilviki í meira en hálfa gátt, þokast aftur tiltölulega fljótt.

Ég tók eftir því að hv. þingmaður sagði að mikið af atriðum frumvarpsins rími við þær 19 tillögur sem komu fram hjá nefndinni. Ég hefði gjarnan viljað hlusta á hv. þm. Frosta Sigurjónsson útskýra það dálítið betur. Það er þess vegna sem ég hef hangið hér í dag, beðið eftir því að hv. þingmaður kæmi og reifaði það, vegna þess að ég tel að með hann sem fulltrúa minn í formennsku í nefndinni sé ég nokkuð vel settur. En mér finnst líka að ég eigi heimtingu á því að hann miðli mér af vinnu sinni og vísdómi. Þegar við ræðum þetta mál við 1. umr. þá er það eðli máls samkvæmt skýringarumræða og það mundi hjálpa mér og öðrum þingmönnum sem taka þátt í umræðunni ákaflega mikið að vita hver samhljómurinn á millum þessa frumvarps annars vegar og hins vegar skýrslunnar er. Er t.d. eitthvað í skýrslunni sem hv. þingmaður hefur lagt fram með félögum sínum, sem ekki er að finna í þessu frumvarpi? Það mundi vera mér til nokkurrar ánægju, en kannski ógleði, að vita hvort svo sé. Ég tek viljann fyrir verkið en lýsi því náttúrlega yfir að aldrei þessu vant þá er ég hundfúll með frammistöðu hv. þm. Frosta Sigurjónssonar í þessari umræðu.