145. löggjafarþing — 122. fundur,  31. maí 2016.

aðgerðir stjórnvalda gegn skattsvikum o.fl.

787. mál
[17:06]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Þau beiskjublöndnu tár sem sullu mér á hvörmum yfir þögulu tómlæti hv. þm. Frosta Sigurjónssonar urðu þó a.m.k. til þess að hann flutti eina af bestu ræðum sem hann hefur flutt og sennilega eina málefnalegustu ræðuna sem ég hef lengi hlustað á um þessi mál. (Gripið fram í.) Ég þakka hv. þingmanni fyrir það. Kannski mundi það greiða fyrir þingstörfum ef ég mundi gráta oftar í ræðustól yfir skorti á ræðum frá Framsóknarflokknum, ég veit það ekki. Það kemur í ljós.

Það var alla vega mikilvægt að hv. þingmaður kom hér og veitti ákaflega málefnalegt svar við umleitan minni. Meðal annars upplýsti hann að af þeim 19 tillögum sem fram koma í skýrslu nefndarinnar sem hann veitir forstöðu er einungis 11 að finna í frumvarpinu. Hann bætti því að vísu við að þar að auki væru ýmis mál sem þau hefðu ekki komið auga á. Við vitum það þá a.m.k. sem höfum áhuga á þessum málum að það er enn töluverður grundvöllur til að bæta málið. Ég var þeirrar skoðunar að þau 19 atriði sem komu fram í skýrslunni væru öll góðra gjalda verð.

Svo vil ég þakka hv. þingmanni fyrir að segja algerlega skýrt að það geti verið mikilvægt að setja reglur sem banna Íslendingum að eiga reikninga eða félög á aflandseyjum. Hann sagði að vísu að líklega mundi það ekki duga til þess að ná utan um þá sem hann nefndi allra hörðustu. En það er alla vega til nokkurs unnið ef hægt er að ná utan um hina og koma í veg fyrir einhvern, kannski stóran part, af þessum undanskotum. Við getum aldrei búið til fullkomið kerfi en við getum alltaf fikrað okkur í átt til fullkomnunar. Það á að vera sameiginlegt markmið Samfylkingarinnar og Framsóknarflokksins og reyndar allra í þessum málum.