145. löggjafarþing — 122. fundur,  31. maí 2016.

aðgerðir stjórnvalda gegn skattsvikum o.fl.

787. mál
[17:39]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég studdi samninginn um Bakka. Ég styð frekari endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi. Ég styð endurgreiðslur og lækkun skattskyldu vegna rannsókna og þróunar. Mér finnst gott að við höfum almenna löggjöf um ívilnanir. Ég hef stutt hvern einasta samning í þessu efni sem gerður hefur verið á þeim tíma sem ég hef verið á þingi. En ég held því ekki fram að við Íslendingar eigum að taka að okkur að siðvæða alþjóðaviðskiptaumhverfið. Þegar við finnum dæmi þess að fyrirtæki sem starfrækt eru hér, annaðhvort í íslenskri eigu eða eigu erlendra aðila, sem eru með einhverja tilburði til að lágmarka skattgreiðslur sínar þá verðum við að stöðva það. Það er m.a. okkar framlag til þess að siðvæða alþjóðaviðskiptaumhverfið. Það er sú rödd sem ég heyrði í þinginu í dag, að við þyrftum að stoppa í slík göt af þeirri ástæðu.

Ástæðan fyrir því að tiltaka þetta er sú að ég vil halda því til haga að við Íslendingar erum þátttakendur í alþjóðlegu viðskiptaumhverfi þar sem menn hugsa mikið um eigin hag. Við höfum komist að þeirri niðurstöðu sem hv. þingmaður nefndi að það þjónaði þjóðarhagsmunum að grípa til þessara ráðstafana, en við erum líka að keppa um fjármagnið við önnur lönd. Við skulum ekkert draga fjöður yfir það. Við erum í harðri samkeppni um fjármagnið við önnur lönd.

Tökum sem dæmi rannsóknarstyrkina. Við höfum komist að þeirri niðurstöðu að við ætlum að leyfa mönnum að gjaldfæra rannsóknarkostnað á Íslandi og lágmarka þannig eða lækka tekjuskatt sinn á Íslandi vegna þess að við vitum að ef við gerum það ekki þá fara störfin úr landi. Það er ástæðan. Við erum ekki að gera þetta af greiðasemi einni sér. Við erum að þessu vegna þess að við viljum verja störfin og umsvifin á Íslandi. Við skulum bara gangast við því að við erum og verðum í alþjóðlegri samkeppni og það er algjörlega óraunhæft að litla Ísland taki að sér að siðvæða alþjóðaviðskiptaumhverfið.