145. löggjafarþing — 122. fundur,  31. maí 2016.

veitingastaðir, gististaðir og skemmtanahald.

457. mál
[17:45]
Horfa

Frsm. atvinnuvn. (Þorsteinn Sæmundsson) (F):

Hæstv. forseti. Mig langar bara rétt til að gera grein fyrir breytingartillögu frá atvinnuveganefnd sem kemur hingað við 3. umr. Eins og einhverjir muna eflaust var málið tekið til nefndar milli 2. og 3. umr. vegna hvatningar um nokkrar breytingar. Breytingarnar eru í fimm liðum.

Fyrsta breytingin er að í stað orðanna „samanlagðar tekjur af leigu eignanna skulu ekki vera meiri en 2 millj. kr. á hverju almanaksári“ í b-lið 1. gr. komi, eins og hér stendur, með leyfi forseta, „samanlagðar tekjur af leigu eignanna skulu ekki nema hærri fjárhæð en kveðið er á um í 3. tölulið 4. gr. laga um virðisaukaskatt, nr. 50/1988“. Þessi breyting er gerð til að sú upphæð sem fest var í 2 millj. kr. mundi taka mið af þeim verðlagshækkunum sem verða í lögum um virðisaukaskatt og þess vegna þurfi ekki að breyta upphæðinni árlega með lagabreytingum.

Í öðru lagi segir hér, með leyfi forseta:

„2. efnismgr. 10. gr. orðist svo:

Endurnýja þarf skráningu á ári hverju og við lok hvers almanaksárs skal aðili með skráða heimagistingu skila til sýslumanns yfirliti yfir þá daga sem húsnæði var leigt út ásamt upplýsingum um leigutekjur. Skil á upplýsingum samkvæmt 1. málslið er skilyrði fyrir endurnýjun skráningar á næsta almanaksári. Sýslumanni er heimilt að senda upplýsingar samkvæmt 1. málslið til skattyfirvalda.“

Þarna er hnykkt á því að fólk sem rekur slíka gistingu haldi skráningu á eignum sínum og eru heimildir sýslumanns til að senda slíkar upplýsingar til skattyfirvalda þannig að hægt sé að hafa eftirlit með því að skattar séu greiddir af tekjunum.

Í þriðja lagi er breytingartillaga við 13. gr. Hér segir:

„a. Við 1. efnismgr. bætist: eða fyrir hærri fjárhæð en kveðið er á um í 3. tölulið 4. gr. laga um virðisaukaskatt.“

Þarna er verið að tala um það sem kom fram við 2. umr., að í frumvarpinu eins og það stendur núna er gert ráð fyrir að það sé upphæð og/eða 90 daga leiga sem skilgreini heimagistingu.

Í stað orðanna „eða stundar útleigu lengur en 90 daga á hverju almanaksári“ komi: stundar útleigu lengur en 90 daga á hverju almanaksári eða fyrir hærri fjárhæð en kveðið er á um í 3. tölulið 4. gr. laga um virðisaukaskatt.

Þarna er verið að skilgreina að þeir sem leigja fyrir hærri fjárhæð en 2 millj. kr. nú og/eða í lengri tíma en 90 daga séu skilgreindir sem svo að þeir stundi atvinnustarfsemi og greiði skatta og skyldur samkvæmt því.

Síðan eiga lögin að öðlast gildi 1. janúar 2017.

Herra forseti. Ég vildi bara gera grein fyrir þessari breytingartillögu sem öll atvinnuveganefnd stendur að. Ég vona að málið gangi til atkvæða að þessari umræðu lokinni.