145. löggjafarþing — 122. fundur,  31. maí 2016.

meðferð og ráðstöfun aflamagns sem dregið er frá heildarafla.

789. mál
[18:27]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér tillögu til þingsályktunar um ráðstöfun aflamagns sem dregið er frá heildarafla, þessi 5,3%. Það hefur komið fram að sú sem hér stendur og hv. þm. Kristján L. Möller lýsa ekki efnislega stuðningi við tillöguna en gera ekki athugasemdir við að flytja hana svo að hún komist á dagskrá.

Þetta mál er þannig vaxið að það er að sjálfsögðu engin ástæða til að leggjast gegn því að hægt verði að setja fram reglugerðir og undirbúa næsta fiskveiðiár, þó að ég hefði gjarnan viljað sjá að við í atvinnuveganefnd og þá atvinnuvegaráðuneytið hefðum á þessum tíma verið komin lengra á veg varðandi endurskoðun þessa hluta fiskveiðistjórnarkerfisins. Í mínum huga væri það á þann veg að stokka þetta upp með það að leiðarljósi að það nýttist sem best til félagslegra aðgerða og þessum sjávarbyggðum vítt og breitt um landið, og að ekki yrði bara hrært í þessum eina potti 5,3% heldur yrði farið út í þær breytingar að hluti útgefinna aflaheimilda yrði stækkaður.

Ég hef marglýst því yfir að ég vilji sjá þann hluta miklu stærri og að hægt sé að leggja fram tillögur í þeim efnum sem beinist að því að bæði sé hægt að tengja þann hluta betur byggðunum og aðgengi útgerðarflokka og stýra þeim ráðstöfunum með ýmsum hætti, eins og að ríkið leigi þær aflaheimildir og að það sé vænlegra til lengri tíma að opna á það, bæði að ríkið fengi þá tekjur og að menn væru ekki að versla sín á milli með að leigja kvóta. Ríkið gæti nýtt þær tekjur til uppbyggilegra mála í þessum sjávarbyggðum og það væri miklu betra en að vera að togast á um það innan þessa hluta, 5,3% — það munar um þetta en þetta er að mínu mati allt of mikið. Það hefur verið mikill ágreiningur um hvernig þessi hluti skiptist innbyrðis. Þess vegna var farið út í að kalla eftir skýrslugerð um það hvernig þessi hluti gagnaðist byggðunum varðandi byggðafestu. Komu út tvær ágætisskýrslur um þau mál sem eru mjög fróðlegar og athyglisverðar. Eins og hefur komið fram er ekki næg reynsla komin á þennan sérstaka byggðakvóta Byggðastofnunar sem samningar hafa verið gerðir um við mörg sjávarpláss til þriggja ára og svo hægt að framlengja um tvö ár, að mig minnir. Ekki er komin sú reynsla að hægt sé að segja nákvæmlega til um áhrifin. En eins og við sem höfum fylgst með þessum málum vitum hefur það komið þessum byggðarlögum mjög vel, að fá þennan sérstaka byggðakvóta. Það er verið að auka í hann með öðru máli sem hefur verið hér til umfjöllunar, um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða, og tel ég það vel.

Ég hef líka sagt og segi það aftur hér að þessar eilífu plástraaðgerðir á þetta eru orðnar þreytandi til lengri tíma litið. Að það sé eilíflega verið að reyna að klastra saman og plástra eitthvað sem þyrfti virkilega að skera upp og stokka upp; henda öllum spilunum upp í loftið og stokka upp á nýtt, miðað við reynsluna. Í atvinnuveganefnd hafa oft verið ágætisumræður, í kjölfar kynningar á þessum skýrslum og hvernig viðkomandi ráðstafanir hafa nýst sjávarbyggðunum varðandi byggðafestu, og eru menn þá að togast á um: Á að draga úr línuívilnunum? Á að draga úr almenna kvótanum og færa yfir í sérstaka kvótann? Eiga strandveiðar að aukast? En það er alltaf verið að tala um að ekki sé verið að auka í þessum potti heldur að færa á milli innbyrðis. Við þekkjum að það þýðir bara eitt, þá kemur það niður á einhverjum sem kannski síst skyldi. Þetta er bara of lítið.

Ég veit að þeir sem hafa verið með þessa sérstöku samninga við Byggðastofnun, þessi byggðarlög sem koma hér fram: Tálknafjörður, Patreksfjörður, Þingeyri, Flateyri, Suðureyri, Drangsnes, Hrísey, Grímsey, Raufarhöfn, Bakkafjörður, Breiðdalsvík, Djúpivogur — að línuívilnun skiptir gífurlega miklu máli í þessu samhengi. Forsenda samninga við Byggðastofnun er brostin hjá sumum þessara staða ef línuívilnun verður skert. Þannig lítur það bara út.

Ég varð svolítið hissa þegar ég sá niðurstöðuna frá RHA, niðurstöðu skýrsluhöfunda Rannsóknamiðstöðvar Háskólans á Akureyri. Þar kemur fram að almenni byggðakvótinn skili mestri byggðafestu af þeim ráðstöfunum sem eru hér undir. Þá er spurning: Hvað er lagt til grundvallar? Er það landaður afli? Eru það störf? Eða hvað er nákvæmlega þar undir? Eins og ég skil þetta er ekki verið að tala um afleidd störf. Almennur byggðakvóti — oftar en ekki hefur verið mikil óánægja með það hvernig hann hefur farið á milli staða. Menn hafa ekki alltaf skilið hvernig sá flutningur verður til. Oft hafa verið miklar deilur innan sveitarfélaga um það hver hlýtur þennan almenna byggðakvóta og togstreita um það. Mér hefði þótt miklu eðlilegra að þessi kvóti væri leigður út í leigupotti á sanngjörnu verði af hálfu ríkisins. Þeir mundu sækja í hann sem féllu undir útgerðir á þessum stöðum sem þarna ættu í hlut og væri hægt að binda það byggðunum þannig að ekki væri verið að styðja við þetta öðruvísi en að það nýttist þá viðkomandi byggðum.

Strandveiðarnar lenda í öðru sæti og eru sagðar gagnast mest hér á höfuðborgarsvæðinu. Þetta auðvitað stingur í augun og lítur ankannalega út. Eins og ég skil þetta á þetta sér þær skýringar að á höfuðborgarsvæðinu er þetta mikill fjöldi, mesta magninu af fiski er landað hér undir þessum lið, strandveiðum. En strandveiðarnar skipta í litlum byggðarlögum, miðað við samsetningu atvinnu, mundi ég halda, miklu meira máli hlutfallslega en í stóra samhenginu hér á höfuðborgarsvæðinu þar sem er gróskumikil atvinna á svo fjölbreyttum sviðum. Strandveiðarnar hafa líka verið að skapa hráefni á þeim tíma ársins, á sumrin, sem fiskvinnslurnar eru oftar en ekki hráefnislausar.

Margt finnst mér þurfa að skýra betur varðandi þessa skýrslu. Þessi skýrsla er góð fyrir sinn hatt en hún segir ekki alla söguna og það hefði þurft að skoða þetta líka út frá fleiri hliðum. Ég er sem sagt fylgjandi því að þetta mál verði lagt fram þó að ég sé ekki samþykk innihaldinu eins og það er og hefði viljað breyta því. En mér finnst eðlilegt að þetta mál verði afgreitt á þingi sem fyrst.