145. löggjafarþing — 122. fundur,  31. maí 2016.

húsaleigulög.

399. mál
[19:17]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Silju Dögg Gunnarsdóttur fyrir ræðu hennar þar sem hún fór vel í gegnum nefndarálit velferðarnefndar með frumvarpi til laga um breytingu á húsaleigulögum sem og breytingartillögur sem hv. velferðarnefnd leggur til við frumvarpið.

Ég kveð mér hljóðs að hluta til einmitt til að hrósa störfum hv. velferðarnefndar. Ég var svo heppin, verandi varamaður í nefndinni, að ég datt inn á nokkra fundi nefndarinnar þar sem einmitt þetta mál var til umræðu. Það hvernig nefndin hélt á málum og einnig hvernig nefndin ræddi sín á milli hvað það væri sem kannski væru skiptar skoðanir um og hvar ágreiningur kynni að liggja fannst mér til algerrar fyrirmyndar. Hún hafði auðvitað það vandasama hlutverk, burt séð frá því að hafa kannski ólíkar pólitískar skoðanir á málinu, að þurfa að feta hina fínu slóð á milli þess að gera það sem frumvarpið á að gera, sem er að styrkja stöðu leigjenda, án þess að ganga svo nærri leigusölum að enginn mundi vilja leigja út íbúðir, hvort sem það væru einstaklingar eða lögaðilar sem ekki reka sig í hagnaðarskyni vegna þess að þeir leigja tilteknum hópum, svo sem námsmönnum, og svo auðvitað allir hinir. Mér fannst nefndin ná að gera þetta óskaplega vel og það sést auðvitað á því að allir nefndarmenn skrifa undir nefndarálitið.

Þetta var samt ekki auðveld vinna eins og sést á breytingartillögunum sem hv. þm. Silja Dögg Gunnarsdóttir kynnti fyrir okkur. Þær eru í 13 tölusettum liðum. Stundum er bara verið að skipta út einu orði en stundum er verið að gera stærri efnislegar breytingar, þannig að þetta er ekkert smámál.

Eins og ég sagði áðan var ég svo heppin að taka sæti á nokkrum fundum nefndarinnar. Mig langar að gera nokkur af þeim atriðum sem rakin eru í nefndaráliti að umræðuefni og voru einmitt til umræðu þegar ég var á fundum nefndarinnar. Í fyrra þegar frumvarpið var lagt fram í fyrsta sinn var talsvert mikið rætt um brottfall 3. mgr. 2. gr. húsaleigulaga. Þetta er setning sem ég held að mörg okkar í þessum sal höfum verið búin að læra og vissum að skipti máli. Nefndin hlustaði á sjónarmið um að það mætti ekki fella hana alveg brott því að hún skipti máli fyrir ákveðna hópa. Það var búið að ákveða að um áfangaheimili fengju áfram að gilda sérstakar reglur. En þau sjónarmið höfðu komið fram að um fleiri hópa þyrftu að gilda sérstakar reglur. Þá þurfti að taka afstöðu til þess að hvaða marki mætti víkja frá þessum reglum og að hvaða marki þyrfti að taka tillit til annarra. Mér fannst til fyrirmyndar að nefndin fékk ekki einu sinni heldur tvisvar á sinn fund þá sem höfðu áhyggjur af þessu ákvæði og leitaðist virkilega eftir því að finna orðalag sem allir gætu sáttir við unað. Þess vegna er gerð sú breytingartillaga vegna útleigu til námsmanna á vegum lögaðila sem ekki eru reknir í hagnaðarskyni og hafa þjónustu við námsmenn að meginmarkmiði að um þá aðila megi gilda hið sama og þá sem reka áfangaheimili. Mér fannst algerlega til fyrirmyndar hvernig nefndin tók á þessu.

Annað atriði sem var þó nokkuð rætt á nefndarfundum og lætur kannski ekkert voðalega mikið yfir sér við fyrstu skoðun lýtur að því að leigjandi og leigusali megi hafa með sér rafræn samskipti. Í 7. gr. frumvarpsins segir að þegar lögin áskilji að orðsendingar, hverju nafni sem þær nefnast, séu skriflegar þá skuli orðsendingar á rafrænu formi taldar fullnægjandi. Ég held að það sé bara í takt við 21. öldina. En hér er það hins vegar algerlega skýrt tekið fram: „enda séu þær tæknilega aðgengilegar móttakanda þannig að hann geti kynnt sér efni þeirra“. Eitt af því sem nefndin leggur til er að áskilið verði að rafrænar orðsendingar séu sendar á síma, netfang eða annan ákvörðunarstað sem gefinn er upp í leigusamningi. Ég held að það sé rosalega mikilvægt að hafa þann varnagla að þær séu tæknilega aðgengilegar móttakanda því að það er því miður svo í okkar samfélagi að það eru ekki allir sem hafa hreinlega efni á hinum tæknilega búnaði sem þarf til að taka við svona skilaboðum. Þess vegna finnst mér mikilvægt að þetta sé tekið fram. Þá geta menn tilgreint þegar þeir ganga frá samningum að þetta sé svona.

Svo er annað sem mig langar að gera að umræðuefni sem mér fannst líka til fyrirmyndar hvernig tekið var á í nefndinni, en það var viðhald brunavarna. Bent var á að það gæti orðið mjög íþyngjandi fyrir leigusala ef þeim væri gert að tryggja til að mynda að alltaf á öllum tímum væru rafhlöður í reykskynjurum og slökkvitæki væru alltaf á öllum tímum full. Þarna voru menn alls ekki að reyna að fría sig ábyrgð um að þessir hlutir ættu að vera í lagi við upphaf leigutíma en bentu engu að síður á að þeim væri ansi erfitt um vik að tryggja að þetta væri alltaf í lagi. Þarna fannst mér aftur til fyrirmyndar hvernig nefndin gekk í það að ræða hvernig væri hægt að leysa þetta svo allir gætu sáttir við unað.

Að lokum langar mig að nefna riftun leigusamninga. Það hafði verið gert ráð fyrir því að það væri hægt að rifta bara samningum en nefndin taldi sanngjarnara gagnvart leigjendum að þeir fengju eina viðvörun áður en samningi væri rift, enda gæti fyrirvaralaus riftun á leigusamningi komið sér mjög illa fyrir leigjendur. Nefndin taldi það ekki íþyngja leigusala um of að það væri einu sinni gefinn séns, ef svo má að orði komast, með skriflegri áminningu. Og aftur settist nefndin yfir það með gestum nefndarinnar að finna út úr því hvernig mætti orða þetta þannig að allir gætu unað sáttir við. Og ég verð að segja, hæstv. forseti, að að því takmarkaða leyti sem ég kom að vinnunni við frumvarpið í nefndinni fannst mér vinnan mjög til eftirbreytni, mjög skemmtileg, því miður pínulítið óvanaleg. Ég vona svo sannarlega að við sem tókum þátt í þessari vinnu berum það með okkur inn í aðrar nefndir hvernig hægt er að vinna vel saman. Svo vona ég líka að við sjáum það áfram að gefinn sé góður tími í að fara yfir umsagnir, gefinn góður tími í að kalla jafnvel oftar en einu sinni og oftar en tvisvar gesti inn á fundi nefndarinnar ef nefndin telur þess þurfa og menn nái þannig á endanum að tala sig niður á niðurstöðu sem allir geta unað sáttir við.