145. löggjafarþing — 122. fundur,  31. maí 2016.

um fundarstjórn.

[20:09]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegur forseti. Ég kveð mér hér hljóðs undir dagskrárliðnum um fundarstjórn. Það hefur verið orðrómur um það í þinghúsinu í dag að taka eigi hér eitt mál fram yfir önnur mál. Í þinghúsinu í kvöld eru margir þingmenn, eins og gefur að skilja, enda má hafa þingfund alveg til miðnættis. Margir bíða eftir því að fá að ræða um og tala fyrir mikilvægum málum og nefndarálitum vegna þess að gert var samkomulag um hvaða mál ættu að vera á dagskrá og klára fyrir sumarið.

Nú ber svo við að ég hef heyrt að taka eigi fyrir mál sem er númer 21 á dagskrá, fram yfir öll hin málin, mál sem ekki neitt mikilvægt kemur í raun fram í eða sem snýr að almannahag í landinu, húsnæðismálum eða öðru sem er á forgangslista ríkisstjórnarinnar.

Virðulegi forseti. Ég mótmæli þessari málsmeðferð í þinginu. Mér finnst á nokkurn hátt verið að beita þingmenn þvingunum (Forseti hringir.) með því að taka ákvörðun af þessu tagi.