145. löggjafarþing — 122. fundur,  31. maí 2016.

fjármögnun og rekstur nýsköpunarfyrirtækja og smærri fyrirtækja í vexti.

668. mál
[20:56]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég held að það sé alveg óhætt að segja að í efnahags- og viðskiptanefnd hafi verið almennur velvilji í garð þessa máls sem lýtur að breytingu á ýmsum lögum til að styðja við fjármögnun og rekstur nýsköpunarfyrirtækja og smærri fyrirtækja í vexti eins og það er orðað í heiti frumvarpsins. Sá fyrirvari sem við hv. þingmenn Valgerður Bjarnadóttir og Guðmundur Steingrímsson ritum hér sérstaklega undir varðar galla sem við teljum á framsetningu þessa lagafrumvarps, að þar sé ekki leitast við að skilgreina nýsköpunarfyrirtæki með jákvæðum hætti. Í stað þess er farin sú leið að skilgreina markmiðið út frá þeim fjármunum sem varið er til rannsókna og þróunar hjá félögum, smærri fyrirtækjum í vexti og síðan er talið upp hvaða starfsemi falli ekki undir ákvæðið. Það er talið upp í allmörgum liðum, svo sem starfsemi sem felst í viðskiptum með fasteignir, starfsemi sem felst í útleigu fasteigna eða lausafjár, starfsemi eignarhaldsfélaga, starfsemi fjárfestingarfélaga, starfsemi eftirlitsskyldra aðila samkvæmt 5. gr. laga um greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi nr. 99/1999, starfsemi sem felst í útseldri þjónustu og ráðgjöf sérfræðinga, starfsemi sem felst í kvikmyndaframleiðslu, starfsemi sem felst í mannvirkjagerð og hvers kyns viðhaldi og endurbótum á mannvirkjum, starfsemi tengd fjárfestingu og/eða rekstri hótela, gistiheimila og veitingastaða, starfsemi sem felst í útflutningi og innflutningi vara sem framleiddar eru og þróaðar af öðrum og starfsemi sem felst í hvers kyns námuvinnslu.

Þarna er miðað við tiltekin fjárhæðarmörk og skilyrði og síðan eru útilokuð fyrirtæki í tilteknum geira. Ég tel mig knúna til að vekja athygli á því að við þetta voru gerðar athugasemdir af til að mynda Samtökum iðnaðarins um að þarna sé verið að útiloka fyrirtæki sem ótvírætt teljist til nýsköpunar út frá hefðbundnum hugmyndum eins og þau hafa verið skilgreind. Þau nefndu sérstaklega kvikmyndaframleiðslu í umsögn sinni. Við vitum alveg að væntanlega er ástæða þess að kvikmyndaframleiðsla er hér útilokuð sú að hún nýtur annars konar stuðnings sem ég held að hafi meira að segja verið hér til umræðu í dag, endurgreiðslur vegna kostnaðar við kvikmyndagerð. Þetta sýnir þann vanda sem skapast, og sá fyrirvari sem við þrjú skrifuðum undir lýtur að þessari skilgreiningu. Við eigum ágætisskilgreiningu á nýsköpunarfyrirtækjum. Fyrirvarinn er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Samkvæmt leiðbeiningum ESA er hægur vandi að beita jákvæðri skilgreiningu á nýsköpunarfyrirtæki“ — ESA er Eftirlitsstofnun EFTA og álit hennar snýst um að tryggja að ekki sé um óheimila ríkisaðstoð að ræða —„en þau eru þar skilgreind sem fyrirtæki: a) sem getur sýnt fram á, með mati sem utanaðkomandi sérfræðingur framkvæmir, að það muni í fyrirsjáanlegri framtíð þróa vörur, þjónustu eða verkferla sem eru nýir eða verulega endurbættir miðað við það sem best gerist í viðkomandi atvinnugrein og sem hætta er á að mistakist í tæknilegu eða atvinnulegu tilliti eða b) þar sem rannsóknar- og þróunarkostnaður nemur a.m.k. 10% af heildarrekstrarkostnaði á a.m.k. einu ári af þremur áður en aðstoðin er veitt eða, þegar um er að ræða sprotafyrirtæki og ekki er um nein fullfrágengin reikningsskil að ræða, í endurskoðun á yfirstandandi reikningstímabili eins og vottað er af ytri endurskoðanda. Eðlilegra hefði verið að beita slíkri jákvæðri skilgreiningu þannig að markmið laganna, sem væntanlega á að vera að efla nýsköpun og þekkingariðnað, skilaði sér til fulls í stað þess að beita þeirri aðferð að útiloka tiltekna geira sem eigi að síður ættu að geta rúmast innan nýsköpunarhugtaksins.“

Þetta er sá fyrirvari sem við ritum öll undir. Svo ég tali bara fyrir sjálfa mig átta ég mig algjörlega á því að það að beita slíkri jákvæðri skilgreiningu hefði líklega kallað á meiri endurskoðun á stuðningsumhverfi í nýsköpunarfyrirtæki. Ég nefndi hér dæmi um kvikmyndagerðina og ég segi hreinlega: Og hvað með það? Er þá ekki bara mjög gott að við gefum okkur tíma og vöndum til verka?

Ég óskaði eftir því við vinnslu nefndarinnar að við fengjum yfirlit frá ráðuneytinu um hvernig þessum málum væri háttað í nágrannalöndum okkar, hvort stjórnvöld fylgdu almennt skilgreiningu ESA eða hvort þetta væri gert með neikvæðum hætti. Svörin sem bárust við því voru eingöngu þau að svona væri þetta gert á Írlandi. Það kom t.d. ekkert fram um hvernig þetta er gert annars staðar á Norðurlöndum þannig að ég leyfi mér að gera athugasemd við þetta. Ég tel að það sé í raun og veru gert til að hraða málinu og komast hjá því að þurfa að fara heildstætt yfir þetta stuðningsumhverfi nýsköpunar sem þó er full þörf á að gera.

Þetta er geiri sem ég tel framtíð þessarar þjóðar byggjast á um margt, þ.e. hvernig við stöndum að honum. Þess vegna styð ég málið í heildina þó að mér finnist það ekki nægjanlega vel unnið að þessu leyti. Tækni- og hugverkafyrirtæki skila í dag þjóðarbúinu u.þ.b. 22% af gjaldeyristekjum þjóðarinnar. Þarna eru undir ólíkir geirar. Við getum talað um gagnaver, líftæknifyrirtæki, kvikmyndaframleiðslu og upplýsingatæknifyrirtæki, alls kyns fyrirtæki. Ég get nefnt sérstaklega leikjaiðnaðinn sem er sá iðnaður sem hefur vaxið hraðast á Norðurlöndum. Þegar norræn samtök leikjaframleiðenda voru stofnuð hér 2012 var velta þeirra u.þ.b. 60 milljarðar ef ég man rétt. Þetta voru u.þ.b. 350 fyrirtæki með á fimmta þúsund starfsmanna. Þetta hefur vaxið hratt síðan og eins og ég segi er þetta mest vaxandi iðnaður á Norðurlöndum, enda ekkert skrýtið því að fjöldi þeirra sem spilar tölvuleiki daglega er u.þ.b. milljarður. Þarna hafa íslensk fyrirtæki náð miklum árangri þrátt fyrir erfiðar aðstæður hér undir höftum frá hruni. Að sjálfsögðu eigum við að stuðla að því að við stöndum á bak við þennan geira sem er líka mikilvægur út frá umhverfissjónarmiðum. Þarna erum við að færa atvinnuuppbyggingu okkar úr hinum hefðbundna hráefnisiðnaði með tilheyrandi orkufrekri starfsemi yfir í geira sem byggir meira á þekkingu þó að vitanlega séu þarna líka orkufrek fyrirtæki eins og gagnaverin.

Af þessum sökum styð ég að við gerum hér ýmsar breytingar til að auðvelda þessum fyrirtækjum lífið hvað varðar rannsóknar- og þróunarkostnað en ég átta mig ekki á þeirri forsendu að heykjast á því að gera atlögu að því að skilgreina nýsköpunarumhverfið með jákvæðum hætti. Ég tek undir umsögn Samtaka iðnaðarins sem benda á nákvæmlega þetta í sinni umsögn. Ég tel að ef gefinn hefði verið meiri tími í að skoða þetta mál hefðum við ekki farið þessa leið. Því miður held ég að þessi neikvæða skilgreining geti átt eftir að verða til þess að upp komi vafaatriði um hvenær þessi fyrirtæki eru inni eða úti, undan skilgreiningunni. Væntanlega munu líka einhverjir verða til þess að benda á að það sem er þarna útilokað sé samt nýsköpun.

Ég held að við séum að baka okkur vandræði með því að fara þessa flýtileið og hefði viljað sjá jákvæða nálgun á þetta mál frá upphafi. Eins og ég segi varðar þessi efnislegi fyrirvari grundvallaratriði í því frumvarpi sem hér er til umræðu. Eigi að síður styðjum við þær breytingar sem lagðar eru til í frumvarpinu sem og þær breytingar sem nefndin leggur til. Ég tel að ágætlega hafi verið farið yfir þær í umfjöllun efnahags- og viðskiptanefndar um málið. Ég átta mig á því að það er meira mál að fara í grundvallarbreytinguna sem við erum að óska eftir með fyrirvara okkar en tel hins vegar að betur hefði farið á því að ráðuneytið hefði tekið þá nálgun frá upphafi. Ég verð líka að segja að ég er ósátt við að þegar þingmenn biðja um upplýsingar frá framkvæmdarvaldinu séu þær mjög oft af skornum skammti eins og í þessu tilviki þar sem óskað er sérstaklega eftir yfirliti um hvernig þetta er annars staðar. Svörin eru bara ekki neitt, þau eru að þetta sé svona í einu landi, að það sé landið sem við notuðum sem fyrirmynd og við gáðum hvergi annars staðar. Það er auðvitað ekki neitt sem Alþingi ætti að þurfa að sætta sig við svo ég segi það bara. Mér finnst þetta eiginlega ekki boðleg svör, frú forseti.