145. löggjafarþing — 122. fundur,  31. maí 2016.

fjármögnun og rekstur nýsköpunarfyrirtækja og smærri fyrirtækja í vexti.

668. mál
[21:18]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég ætla að koma stuttlega inn í þetta mál og verð að lýsa ánægju minni með það. Ég held að við munum sjá málinu fagnað í ýmsum skilningi til framtíðar litið. Hér er talað um efni frumvarpsins og vinnu nefndarinnar, að markmiðið sé að bæta samkeppnishæfni íslenskra fyrirtækja auk þess að styðja við nýsköpun og þróun þeirra sem kostur er, t.d. með aðkomu og þátttöku einstaklinga. Hér er talað um breytingar á skattlagningu einstaklinga, skattalega ívilnun til erlendra sérfræðinga, frádrátt vegna rannsóknar- og þróunarkostnaðar nýsköpunarfyrirtækja og skattafslátt vegna hlutabréfakaupa.

Ástæða þess að ég kvaddi mér hljóðs er að hæstv. fjármálaráðherra líkti þessu í umræðunni í dag við skattaparadísir af því að við værum hér að veita ívilnanir sem hann lagði að jöfnu við það sem þar hefur átt sér stað. Mér fannst það afar sérstök nálgun, svo ekki sé dýpra í árinni tekið. Það er kannski í anda þess þegar talað er um Ísland sem skattaparadís. En þetta er hins vegar nokkuð sem liggur fyrir, þetta er ekki í lokuðu landi eða á lokuðum eyjum. Hér kveða reglur og heimildir á um að maður á að gefa upp alla hluti, en þegar verið er að tala um aflandseyjar er slíkt regluverk ekki til staðar. Mér fannst ég verða að koma hér upp og ræða það örlítið.

Ég er hins vegar hlynnt þessu frumvarpi og tel skynsamlegt að reyna í þeim tilfellum sem það á við — þetta er kannski þröng merking — þeir erlendu sérfræðingar sem hingað þurfa að koma vegna þess að það er jú skortur á þeim eða þekkingin er ekki til staðar eða annað slíkt. Ég lít a.m.k. svoleiðis á það og skil það þannig. Ég tel þess vegna að það sé í lagi að draga þá út úr hinu hefðbundna skattamengi.

En á bls. 3 er talað um skattfrádrátt, þ.e. þegar aðilar koma hér til lands og hafa tíma, meira en þrjá mánuði, til þess að skila inn tilskildum gögnum til að fá skattaívilnun. Ef það gerist eftir þann tíma þarf vinnuveitandi að halda eftir staðgreiðslu af allri launafjárhæðinni, ekki bara 75%. Hér er líka verið að tala um iðgjald til lífeyrissjóða, að þarna geti myndast einhver inneign og mismunur og eitthvað slíkt. Hér er getið um minnisblað frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu þar sem fram kemur að ráðuneytið sé tilbúið að taka til sérstakrar skoðunar þá ábendingu. Svo er talað um möguleika til að leiðrétta staðgreiðsluskil viðkomandi aðila aftur í tímann um leið og umsókn sé samþykkt.

Það er alltaf svolítið bix þegar leiðrétta þarf skattamál aftur í tímann, ég tala nú ekki um þegar lífeyrisgreiðslur og annað er komið inn í, þannig að mér finnst verið að búa eitthvað til sem ekki þyrfti að vera, þ.e. að þessi tími, þrír mánuðir, sé heimill. Ég held að skynsamlegra væri að hafa það ekki, að það þyrfti að liggja fyrir þegar viðkomandi kemur til landsins, þá væri það bara klárt til þess að svona bix þyrfti ekki að eiga sér stað.

Að öðru leyti finnst mér þetta bara gott og það er ánægjulegt að verið sé að hækka frádráttinn og viðmiðin og annað slíkt, sem hleypir fleiri fyrirtækjum inn í rannsóknar- og þróunarvinnuna og verður væntanlega til þess að efla samfélag okkar og gera það enn frjórra.

En ég tek undir skilgreiningu minni hlutans í nefndinni. Við eigum að gera meira af því að nálgast hlutina á jákvæðan hátt í staðinn fyrir að leggja þá upp neikvætt. Það er svo einfalt að breyta því, en því miður eru lagafrumvörp gjarnan með þeim hætti að þau ganga út frá neikvæðri nálgun í stað jákvæðrar, þ.e. hvað er bannað og allt slíkt, í staðinn fyrir að hafa jákvæða nálgun eins og hér er lagt til. Mér finnst synd að nefndin hafi ekki komist að þeirri niðurstöðu að breyta því í þá átt. En annað ætlaði ég ekki að segja um þetta mál, frú forseti.