145. löggjafarþing — 122. fundur,  31. maí 2016.

ný skógræktarstofnun.

672. mál
[21:46]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að fagna því að þetta frumvarp skuli komið hér til 2. umr., og ég get tekið undir flest það sem fram kemur í nefndaráliti. Ég velti hins vegar fyrir mér hvort kveða megi enn sterkar að orði í nefndarálitinu varðandi áherslur á virkt samráð Skógræktarinnar og bænda. Mér finnst mikilvægt að draga fram tvenns konar eðli samráðsins, annars vegar um fjármál og samninga á landsvísu og hins vegar um áherslur og stefnumótun innan landshlutanna. Hvort tveggja tel ég mikilvægt fyrir stofnunina og þá bændur sem sinna ræktun skóga á sínu landi.

Í 6. gr. frumvarpsins er lögð til breyting á 5. gr. laga um landshlutaverkefni í skógrækt og kveðið á um samráð við Landssamtök skógareigenda við ákvörðun viðmiða fyrir endurgreiðslu samþykkts kostnaðar. Í nefndarálitinu er áréttað að um virkt samráð verði að ræða, það finnst mér mikilvægt, enda um fjárhagslegan grundvöll samstarfs skógarbænda og Skógræktarinnar að ræða. Í greininni er einnig kveðið á um samráð við félög skógarbænda á viðkomandi landsvæðum varðandi áherslur og framkvæmd skógræktar á lögbýlum. Að sama skapi er mikilvægt að það samráð verði virkt enda er það grundvöllur að mótun sameiginlegra áherslna, stefnumörkunar og áætlunargerðar í hverjum landshluta.

Ég vil því spyrja framsögumann hvort hann geti ekki tekið undir þetta og hvort ástæða sé til að ítreka það hér úr ræðustól eða með viðbótarnefndaráliti að þetta samráð skuli að sama skapi vera virkt.