145. löggjafarþing — 122. fundur,  31. maí 2016.

ný skógræktarstofnun.

672. mál
[21:51]
Horfa

Frsm. um.- og samgn. (Höskuldur Þórhallsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Af því að ég var spurður beint hvort það hefði komið fram fyrir nefndinni: Já, það kom fram fyrir nefndinni og nefndarmenn spurðu. En hvort ég geti veitt fullnægjandi svar um hvenær heildarendurskoðun laga um skógrækt fer fram, ég er ekki viss um það. En ég get þó staðfest að það var fullyrt að heildarendurskoðun væri í pípunum og að ráðuneytið væri með vinnu í gangi við að endurskoða lögin. Það komu engar fullyrðingar fram um tímasetningar eða hvenær það gæti orðið. Ég las það hins vegar þannig, úr svörum ráðuneytismanna, að þeir væru mjög áfram um að sú vinna gæti gengið mjög vel og hratt fyrir sig, og örugglega. Ég gat ekki skilið þá öðruvísi en svo að þeir teldu að það væri mjög mikilvægt að sú endurskoðun færi fram fyrr en seinna, sérstaklega í ljósi þeirra breytinga sem við erum að gera hér, sameiningar stofnana og nýrrar skógræktarstofnunar. Við skulum vona að af þeim svörum megi ráða að sú heildarendurskoðun muni fara fram fyrr en seinna. Ég skynja það einnig á ráðherra umhverfismála að hún hefði viljað hafa meiri tíma á þessu kjörtímabili til þess að klára það einnig. Við skulum bara sjá hverju fram vindur.