145. löggjafarþing — 122. fundur,  31. maí 2016.

tónlistarnám og jöfnun á aðstöðumun nemenda.

797. mál
[22:03]
Horfa

Frsm. allsh.- og menntmn. (Unnur Brá Konráðsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna samkomulags milli ríkis og sveitarfélaga um stuðning við tónlistarnám og jöfnun á aðstöðumun nemenda til tónlistarnáms (gildistími bráðabirgðaákvæða o.fl.), sem flutt er af meiri hluta allsherjarnefndar, þ.e. þeirri sem hér stendur og hv. þingmönnum Líneik Önnu Sævarsdóttur, Haraldi Einarssyni, Jóhönnu Maríu Sigmundsdóttur og Vilhjálmi Árnasyni. En hér er um að ræða mál sem á rætur sínar að rekja til þess að undirritað var samkomulag á milli ríkis og sveitarfélaga varðandi stuðning við tónlistarnám í apríl sl. Samkomulagið varðar jöfnun á aðstöðumun nemenda til tónlistarnáms.

Frumvarpið er að mestu samhljóða frumvörpum sem urðu að lögum hér áður fyrr á grundvelli eldra samkomulags á milli sömu aðila frá 2011. Þau lög voru síðan aftur tekin upp og önnur lög sama efnis samþykkt árið 2014 og árið 2015 voru sett ný lög með sama heiti.

Gildistíminn er lengri á því samkomulagi sem undirritað var í apríl en á því sem undirritað var 2011 og felur það í sér nokkur ný atriði. Það sem hér um ræðir er að flutningsmenn leggja til að lögfesta breytingu á nokkrum lögum til þess að hægt sé að standa við samkomulagið. Fram kemur í samkomulaginu að ríkissjóður skuli greiða árlegt styrktarframlag Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga sem skuli renna til greiðslu kennslukostnaðar að meðtöldu álagi fyrir stjórnunarkostnað o.s.frv. Á móti skuldbinda sveitarfélögin sig til þess að taka tímabundið við ákveðnum verkefnum frá ríkinu og út á það gengur frumvarpið, að lögfesta að heimilt sé að færa þessa fjármuni á milli.

Hér er verið að skjóta lagastoð undir það að sveitarfélög leggi til 230 millj. kr. árlegt framlag til samkomulags til stuðnings við tónlistarnám og jöfnun aðstöðumunar nemenda. Önnur verkefni en þau sem tilgreind eru í frumvarpinu, sem sveitarfélögin fjármagna tímabundið, kalla ekki á breytingar á sérlögum að þessu sinni.

Jafnframt er hér um að ræða að Jöfnunarsjóður sveitarfélaga greiði kostnað við þau verkefni fyrir hönd sveitarfélaganna sem hér um ræðir og innheimti kostnað. Hér er verið að skjóta lagastoð undir heimild jöfnunarsjóðs. Hér er um að ræða sömu eða sambærileg verkefni og sveitarfélög hafa haft með höndum frá 2011 samkvæmt samkomulaginu sem þá var gert.

Ekki verður séð að lögfesting þessa frumvarps muni hafa í för með sér útgjöld fyrir ríkissjóð, en hins vegar má ætla að jákvæð samfélagsleg áhrif verði nokkur.

Ætlað er að greiða fyrir því að nemendur í framhaldsnámi í hljóðfæraleik og söngnemar í mið- og framhaldsnámi geti stundað tónlistarnám óháð því hvar þeir eru skráðir með lögheimili og er stuðlað að greiðsluþátttöku ríkisins í því tónlistarnámi.

Allir þekkja að talsverðar deilur hafa sprottið af því hvernig túlka beri samkomulagið frá 2011, en vonir standa til þess að samkomulagið frá 13. apríl sl. leysi þær deilur og hefur verið lögð áhersla á það við gerð þessa samkomulags að koma í veg fyrir slíkan ágreining.

Í samkomulaginu kemur fram að það feli ekki í sér breytingar á verkefnaskiptingu ríkis og sveitarfélaga og að fjárstuðningur ríkisins sé óháður útgjöldum sveitarfélaga vegna rekstrar tónlistarskóla og taki ekki breytingum í samræmi við þau. Kjósi sveitarfélag að auka kennslumagn umfram úthlutun úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga ber það sjálft þann viðbótarkostnað.

Hér er um að ræða breytingu á lögum um fjárhagslegan stuðning við tónlistarskóla. Þar er um að ræða breytingu á lögum um námsgögn, breytingu á lögum um grunnskóla og breytingu á lögum um tekjustofna sveitarfélaga.

Við vonumst til þess að málið hljóti brautargengi í þinginu, en við í allsherjarnefnd vorum beðin um það af hálfu menntamálaráðuneytisins að flytja málið hér vegna þess hve stutt er eftir af þinginu og nauðsyn þykir á því að skjóta lagastoð undir heimildir jöfnunarsjóðs til þess að innheimta og til að úthluta fjármunum í þau verkefni sem samkomulagið greinir.

Við undirbúning þessa máls fengum við til okkar gesti í nefndina frá ráðuneytinu, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Reykjavíkurborg, sem er stærsta sveitarfélagið sem er aðili að þessu máli, og fulltrúa frá tónlistarskólunum til þess að fara aðeins yfir stöðuna. Ég átta mig á því að það er ekki til fyrirmyndar að fá mál inn með þessum hætti með svo skömmum fyrirvara, en engu að síður telja flutningsmenn mikilvægt að verða við þessari beiðni í ljósi þess að að öðrum kosti er ekki mögulegt að efna samkomulagið og standa við þær skuldbindingar sem Jöfnunarsjóður sveitarfélaga og sveitarfélögin hafa tekið að sér.