145. löggjafarþing — 122. fundur,  31. maí 2016.

tónlistarnám og jöfnun á aðstöðumun nemenda.

797. mál
[22:16]
Horfa

Frsm. allsh.- og menntmn. (Unnur Brá Konráðsdóttir) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta frumvarp er samið í ráðuneyti menntamála, en áður en við ákváðum að fallast á þessa beiðni að flytja málið kynntum við okkur að sjálfsögðu hvort nauðsynlegt væri að gera það og kölluðum til okkar gesti. Við kölluðum til okkar fulltrúa ráðuneytisins, frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, fulltrúa jöfnunarsjóðs og með þeim í för voru fulltrúar frá Reykjavíkurborg sem er stærsta sveitarfélagið og voru gripnir með til þess að hægt væri að varpa aðeins ljósi á hlut Reykjavíkurborgar í þessu máli öllu; mestar deilurnar um túlkunina á samkomulaginu frá 2011 hafa varðað það sveitarfélag. Jafnframt fengum við á fund hjá okkur fulltrúa frá tónlistarskólunum, en fundurinn litaðist af því að frumvarpið lá ekki fyrir enda vorum við ekki búin að samþykkja að flytja það heldur vorum við meira að reyna að ná fram hvernig staðan væri o.s.frv. Það varð niðurstaða okkar eftir umræður í nefndinni að nú í júní, á nefndadögum, ætluðum við í allsherjar- og menntamálanefnd að reyna að kynna okkur betur hver staðan er og önnur efnisatriði samkomulagsins. Við erum bara að reyna að skjóta lagastoð undir það sem þarf að gera, en það eru fleiri atriði í samkomulaginu sem allsherjar- og menntamálanefnd hefur áhuga á að kynna sér, t.d. hugmyndirnar um þennan nýja skóla sem hv. þingmaður minntist á. Ég vonast til þess að við náum að komast yfir það í byrjun júní að halda slíkan fund. Að minnsta kosti voru allir sem kíktu á okkur þennan föstudagseftirmiðdag klárir í slaginn að fara betur yfir málið með okkur síðar.