145. löggjafarþing — 122. fundur,  31. maí 2016.

tónlistarnám og jöfnun á aðstöðumun nemenda.

797. mál
[22:18]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Unni Brá Konráðsdóttur þetta svar. Það liggur fyrir að tónlistarskólarnir hafa ekki verið hafðir með í ráðum, a.m.k. ekki hvað varðar þetta frumvarp. Þá er ég að vitna til formlegra samtaka tónlistarskólastjóra og tónlistarkennara. Það er umhugsunarefni. Þegar um er að ræða samkomulag um framtíð tónlistarmenntunar er eðlilegt að hv. allsherjar- og menntamálanefnd kynni sér nákvæmlega hvernig það ferli hefur verið. Hér er verið að ræða það, virðist vera — og nú verð ég að segja enn og aftur „virðist vera“ af því að ég veit ekkert um málið nema það sem ég hef lesið í fjölmiðlum — að ætlunin sé að stofna nýjan skóla, að hugsanlega sé horfið frá fyrirætlunum um að leggja fram lagaramma um tónlistarnámið þar sem þessir hlutir verða skýrðir betur eftir því sem mér skilst. Ég hef ekki hugmynd um það, það er afar óþægilegt að standa hér og ræða jafn mikilvægt mál í þessari þoku. Ég velti fyrir mér hvort fulltrúar heildarsamtaka tónlistarskóla, skólastjóra og kennara, hafi eitthvað vitað um þessi áform, hvort þau hafi verið höfð með í ráðum um önnur áform. Þá er ég ekki að vitna til þess sem kemur hér fram í frumvarpinu.

Ég hefði talið eðlilegt að ráðherra kæmi í þingið, þegar hann kemur frá Færeyjum, og gæfi þinginu skýrslu um önnur þau atriði sem ekki snúa eingöngu um þessi atriði heldur um þessa framtíðarsýn sem við heyrum af. Ég bið virðulegan forseta um að sjá til þess að það verði skoðað fyrir dagskrá morgundagsins, því að það er erfitt fyrir hv. allsherjar- og menntamálanefnd að eiga að afgreiða hér mál án þess að þingið — það er mjög gott að nefndin ætli að fara yfir þetta í júní, en það breytir því ekki að þingið er þá samt sett í þá stöðu að samþykkja eitthvað án þess að hafa heyrt neitt í ráðherranum, það gengur náttúrlega ekki.

Að lokum vil ég spyrja hv. þingmann hvenær hún heyrði af því að ætlast væri til þess að nefndin mundi flytja (Forseti hringir.) þetta mál, hvort það var á sama tíma og aðrir hv. þingmenn hér undir lok síðustu viku en ekki strax að lokinni undirritun þessa samkomulags 13. apríl 2016.