145. löggjafarþing — 122. fundur,  31. maí 2016.

tónlistarnám og jöfnun á aðstöðumun nemenda.

797. mál
[22:24]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég þakka forseta fyrir að gera hæstv. menntamálaráðherra viðvart um að nærveru hans er óskað í þeirri umræðu sem er afurðin af hans handvömm og hans embættisfærslum sem eru fyrir neðan allar hellur. Þetta er því miður ekki eina dæmið um samskipti hæstv. ráðherra við Alþingi þar sem hann fer ítrekað fram með þeim hætti að hann reynir að koma sér undan því með öllum tiltækum ráðum að eiga hér samskipti við Alþingi um jafnvel grundvallarbreytingar á menntakerfinu á Íslandi. Er þess skemmst að minnast þegar hann með einhverri klásúlu í fjárlagafrumvarpi lokaði framhaldsskólunum fyrir öllum 25 ára og eldri. Hið sama gerðist með styttingu framhaldsskólans þar sem hann skákaði í skjóli annarra hluta en samskipta við Alþingi.

Hér þarf það bara að koma fram, virðulegi forseti, að samskipti hæstv. ráðherra við þingmenn stjórnarandstöðunnar (Forseti hringir.) í síðustu viku hófust þegar viðkomandi þingmenn höfðu fengið tölvupóst frá Guðjóni Bragasyni hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga sem óskaði eftir því að hér yrði málinu greidd leið, þ.e. hinn samningsaðilinn úti í bæ (Forseti hringir.) talaði við þingmenn stjórnarandstöðunnar áður en hæstv. ráðherra sá sig knúinn til þess.