145. löggjafarþing — 122. fundur,  31. maí 2016.

tónlistarnám og jöfnun á aðstöðumun nemenda.

797. mál
[23:07]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég get byrjað á að upplýsa hæstv. ráðherra um að mér er líka þungt í sinni yfir öllu þessu máli og að sjálfsögðu er manni þungt í sinni þegar samkomulag sem ætlað er að efla tónlistarnám og bæta við fjármunum í tónlistarnám er misskilið viljandi með þeim hætti sem það var. En gott og vel, við erum búin að fara margoft yfir það í þessum sal. Nú erum við að ræða þetta frumvarp. Það byggir á samkomulagi sem hæstv. ráðherra undirritaði í apríl 2016. Þar stendur, með leyfi forseta:

„Aðilar eru sammála um að á vorþingi 2016 verði lagt fram frumvarp um nauðsynlegar breytingar á lögum í tengslum við samkomulag þetta, þar með talið frumvarp til laga um tónlistarskóla.“

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra: Er það eitthvert annað mál en við erum að ræða hér, því við erum ekki að ræða frumvarp til laga um tónlistarskóla? Við erum að ræða frumvarp til laga um verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga vegna þessa samkomulags. Hefur eitthvað breyst frá 13. apríl 2016? Er frumvarpið ekki á leiðinni hér inn? Hæstv. ráðherra verður að kannast við það að hann hefur margoft og ítrekað sagt að unnið sé að slíku frumvarpi. Það kemur fram í greinargerð með frumvarpinu að unnið sé að slíku frumvarpi. Undir þetta var ritað í samkomulaginu. Af hverju vil ég fá að vita eitthvað um þetta? Jú, þetta er eitt af því sem stóð líka í samkomulaginu 2011 og síðan var haft uppi að hefði verið mikið brot á því samkomulagi að það frumvarp hefði ekki náð fram að ganga. Það eru allmörg ár liðin. Hér er enn og aftur vitnað í að leggja eigi frumvarpið fram. Er ekki eðlilegt að hv. þingmenn séu upplýstir um það í ljósi þess að þetta er eitt af því sem hefur verið bitbein í þessari umræðu allri?

Að sjálfsögðu eigum við hv. þingmenn að greiða fyrir því að tónlistarskólarnir í landinu verði ekki fyrir meiri skaða en orðið er. Um það held ég að þetta mál snúist ekki. Það er hins vegar fullkomlega eðlileg krafa þegar við lesum um þetta í opinberum gögnum sem ekki hafa verið kynnt í þinginu að við spyrjum þessara spurninga eins og t.d. þegar undirritað er samkomulag um að á leiðinni hingað inn á þetta þing (Forseti hringir.) sé frumvarp til laga um tónlistarskóla. Þetta er fullkomlega eðlileg spurning, frú forseti.