145. löggjafarþing — 122. fundur,  31. maí 2016.

tónlistarnám og jöfnun á aðstöðumun nemenda.

797. mál
[23:12]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hæstv. ráðherra segir að margt hafi breyst frá því að samkomulagið var gert. Eitt hefur ekki breyst, það er fullkomið verkleysi hæstv. ráðherra í þessum mikilvæga málaflokki. Hæstv. ráðherra kannast hvorki við né man sín eigin orð. Hann furðar sig á því að menn skuli hér vera að rukka hann um lagafrumvarp sem tengist verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga.

Það var þessi hæstv. ráðherra sem sjálfur svaraði þremur spurningum mínum í fyrra í umræðu um þetta mál og sór og sárt við lagði að verið væri að vinna að frumvarpi. Fyrst nefndi hann það reyndar í umræðu í nóvember 2014 að frumvarp mundi koma í vor. Svo kom vorið og í sumarbyrjun 2015 sagði hæstv. ráðherra, með leyfi forseta:

„Þetta er allt saman á teikniborðinu. Við erum að stíga hér fyrstu skrefin. Við erum enn að fara yfir það hvernig við eigum að skilgreina aðkomu ríkisins og hvernig við eigum að skilgreina aðkomu sveitarfélaganna. Það þarf að gera á nákvæmari hátt en gert var með samkomulaginu árið 2011, enda gerðu menn sér alveg grein fyrir því þegar það samkomulag var gert að það var til þess ætlast að lagt yrði fram frumvarp á þinginu til þess að skerpa á því. Það er það sem við erum að gera núna.“

Þetta eru orð hæstv. ráðherra. Hann segir síðan:

„Ég vonast til þess að þessi vinna verði öll komin þannig að við getum séð lagafrumvarp koma inn í þingið strax næsta haust.“

Frú forseti. Það eru sjö, átta mánuðir síðan það haust leið hjá. Svo kemur hæstv. ráðherra og undrar sig á því að nokkur skuli rukka hann um lagafrumvarpið sem hann sagði sjálfur að ætti að vera komið inn fyrir mörgum mánuðum. Þegar ég dró í efa að það væri tími fyrir hæstv. ráðherra til þess að leggja það fram á hausti komandi sagði hann, með leyfi frú forseta:

„Hvað varðar það hvort menn geti komið með frumvarp þá held ég að hægt sé að gera það. Það á að takast. Þess vegna er þessi nefnd sett upp. Þess vegna eru tveir fulltrúar frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga í þeirri nefnd til þess einmitt að eiga samtal við okkur um þessa þætti.“

Hæstv. ráðherra kannast ekki við sín eigin orð. Það var hann sem kom hingað í fyrra (Forseti hringir.) og sagði að þetta mál yrði afgreitt í eitt skipti fyrir öll og það þyrfti aldrei aftur að taka þingið í gíslingu eins og hann er að gera núna. (Forseti hringir.) Núna tekur hann hv. formann allsherjar- og menntamálanefndar í gíslingu, (Forseti hringir.) nefndina sjálfa og þingið líka af því að hann er fullkomlega verklaus í þessu máli.

(Forseti (BjÓ): Forseti vill biðja hv. þingmann um að virða tímamörk.)