145. löggjafarþing — 122. fundur,  31. maí 2016.

tónlistarnám og jöfnun á aðstöðumun nemenda.

797. mál
[23:18]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil rifja það upp fyrir hæstv. ráðherra að ég tók undir hugmyndir hans hér í fyrra. (Gripið fram í.) Ég sagði honum að ég mundi styðja þær þegar þær kæmu fram. Þær hafa aldrei komið fram fyrir þetta þing. Það þýðir ekkert fyrir hæstv. ráðherra að koma hér núna og tala um metnaðarleysi Reykjavíkurborgar. Var það ekki þessi hæstv. ráðherra sem sagði í fyrra að hann sæi ákveðin sanngirnisrök í málflutningi Reykjavíkurborgar? Jú, það var hann, í þessu máli. Það var hæstv. ráðherra sem kom hér áðan og talaði um metnaðarleysi.

Hvar liggur metnaðarleysið í þessu máli? Liggur það ekki hjá ráðherra sem segir að menn hafi þurft tíma til þess að greiða úr flækjunni? Hvað er hæstv. ráðherra búinn að taka langan tíma í að greiða úr þessari flækju? Þrjú ár, og hann er ekki enn kominn með lausnina fyrir þingið. Kjörtímabilið er að verða búið. Það er engin von til þess að hæstv. ráðherra geti komið skikk á þessi mál á meðan hann er í embætti nema hann haldi áfram bak kosningum, vegna þess að hann hefur sýnt í þessu máli fullkomið metnaðarleysi. Ég hef meiri metnað fyrir hönd þessa hæstv. ráðherra en hann virðist sjálfur hafa. Ég hef t.d. þann metnað fyrir hans hönd að hann ætti að kannast við sín eigin orð. Það þýðir ekkert fyrir hann að koma hingað og rífa sig niður í rass og velta því upphátt fyrir sér hvers vegna í ósköpunum þingheimur sé að tala um eitthvert lagafrumvarp. Það var hann sem sagði að það þyrfti lagafrumvarp. Það kom líka fram í tengslum við samkomulagið sem gert var í apríl.

Ein af þeim spurningum sem hæstv. ráðherra þarf líka að svara hér er hvernig á því stendur að hann hefur ekki haft kjark sjálfur til þess að koma fram með þetta frumvarp og leggja það fyrir þingið. Enn einu sinni pínir hann allsherjar- og menntamálanefnd til þess að koma fram með það, hagar málum þannig að ekki er annar kostur en að velja á milli þess að nefndin komi með málið og hann þurfi ekki að standa frammi fyrir því sjálfur eða þá að skólarnir komist í þrot. (Forseti hringir.) Hvers konar vinnubrögð eru það nú, frú forseti?